Hrollvekjan The Purge: Election Year, eða Hreinsunin: Kosningaár í lauslegri þýðingu, var sigurvegari í bíóaðsókn gærdagsins í Bandaríkjunum, en myndin gerði betur en tvær mun dýrari nýjar myndir, The Legend of Tarzan og The BFG, og þénaði 3,6 milljónir Bandaríkjadala á fimmtudagskvöldið þar ytra.
The Legend of Tarzan var með aðra mestu aðsóknina í gær, eða 2,7 milljónir dala, og Steven Spielberg myndin The BFG, sem er með Ólaf okkar Darra Ólafsson meðal leikenda, þénaði 775 þúsund dali, en myndin var frumsýnd hér á landi nú í vikunni. Tarzan kemur í bíó hér á landi í næstu viku. The Purge er hinsvegar ekki með áætlaðan frumsýningardag á Íslandi.
The Purge: Election Year gekk betur í gær en fyrirrennurum hennar tveimur gekk. Fyrsta myndin, The Purge, þénaði 3,4 milljónir dala á fyrsta degi sínum í sýningum, og The Purge: Anarchy þénaði 2,6 milljónir dala á fyrsta sýningardegi árið 2014.
Samkvæmt Variety vefsíðunni þá má spá The Purge: Election Year 27 milljóna dala heildarinnkomu yfir helgina alla, sem er ekki slæmt fyrir þessa mynd sem kostaði bara 10 milljónir dala í framleiðslu.
The Purge myndirnar gerast í Bandaríkjunum í nálægri framtíð, en þar eru allir glæpir, þar á meðal morð, löglegir í eitt kvöld á hverju ári.
Aðalhlutverk í þriðju myndinni leikur Elizabeth Mitchell, en hún leikur forsetaframbjóðanda, sem hefur það á stefnuskránni að afnema þennan undarlega sið.
Áætlað er að The Legend of Tarzan, sem er með þeim Alexander Skarsgård og Margot Robbie í aðalhlutverkum, sem Tarzan og Jane, muni þéna um 35 milljónir dala yfir helgina alla, en myndin er sýnd í mun fleiri kvikmyndasölum en The Purge.
Ef þessar spár ganga eftir eru það vonbrigði, þar sem myndin kostaði 18 sinnum meira en The Purge: Election Year, eða 180 milljónir dala.
Spár segja fyrir um að The BFG muni þéna 30 milljónir dala yfir helgina alla.