Í gær var ný íslensk kvikmynd, Rökkur, frumsýnd við hátíðlega athöfn í Smárabíói í Kópavogi. Margt var um manninn og fjöldri þekktra andlita var mættur til að berja myndina augum.
Í ræðu sinni áður en sýning myndarinnar hófst, þá sagði Erlingur Óttar Thoroddsen, leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur, að það væri dálítið skrýtið að vera nú fyrst að frumsýnda kvikmyndina á Íslandi, eftir að hafa frumsýnd myndina fyrst fyrr á árinu á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð og farið svo með hana á um 30 kvikmyndahátíðir um allan heim. Það væri þó stór stund að koma með kvikmyndina heim og sýna hana fyrir fullum sal Íslendinga.
Rökkur er að segja má í bland glæpasaga, draugasaga og hrollvekja sem gerist á Snæfellsnessi, undir jökli, á Gufuskálum og þar í kring. Söguhetjurnar eru tveir samkynhneigðir menn, annar ungur en hinn lífsreyndari. Sá ungi, Einar, sem Sigurður Þór Óskarsson leikur, hringir í hinn, Gunnar, sem Björn Stefánsson leikur, um miðja nótt. Gunnar, sem nú er kominn í nýtt samband, óttast um þennan fyrrum félaga sinn og keyrir út á Snæfellsnes, í sumarbústað sem Einar dvelur í. Það er svo upphafið á atburðarás sem er allt í senn hrollvekjandi ráðgáta, og dramatískt uppgjör.
Rökkur verður frumsýnd í almennum sýningum á föstudaginn næsta, þann 27. október.
Hér fyrir neðan er stutt myndbrot frá frumsýningunni þegar leikstjórinn þakkar aðstandendum fyrir framlag þeirra til verkefnisins: