Benedikt Erlingsson, leikstjóri og handritshöfundur, og Friðrik Þór Friðriksson framleiðandi tóku á móti Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs 2014 fyrir myndina Hross í oss við verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Þetta segir í fréttatilkynningu frá Norðurlandaráði.
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum. Þau voru afhent af verðlaunahafa síðasta árs, Sisse Graum Jørgensen , í ráðhúsinu í Stokkhólmi. Hún las jafnframt upp rökstuðning dómnefndarinnar.
Rökstuðningur
„Hross í oss“ er sérlega frumleg mynd með rætur í kjarnyrtum húmor Íslendingasagnanna. Hún fjallar um um þau sterku bönd sem eru á milli manna og náttúrunnar. Kjarni samtvinnaðra frásagna myndarinnar er eilíf barátta mannsins við að beisla náttúruna og hvernig það misheppnast á aumkunarverðan hátt, oft með hrikalegum afleiðingum.
Leikstjórinn hefur djúpan skilning á frumkröftum hrossa og manna. Með því að nota augnaráð skepnu sem eitt helsta sjónarhornið til að endurspegla grátbroslega hegðun manna fær „Hross í oss“ sérstæðan ljóðrænan blæ en líka svartan, spaugsaman tón.
Benedikt Erlingsson leikstjóri fléttar saman kraftmikið myndmál, klippingu og tónlist þannig að myndin sjálf verður eins og náttúruafl.