Jaimie Alexander úr Þór slasast á tökustað

Hin 28 ára gamla leikkona Jaimie Alexander var heppin að sleppa með skrámur þegar hún lenti í slysi á tökustað framhaldsmyndarinnar um Thor; Thor: The Dark World.

„Ég lenti í frekar hræðilegu slysi og þurfti að draga mig í hlé frá tökum. Ég er heppin að hafa ekki lamast,“ sagði Alexander á Twitter síðu sinni. „Ég þakka kærlega öllum þeim sem hafa annast um mig,“ bætti hún við.

Engar upplýsingar hafa þó verið gefnar um það hvað gerðist í raun og veru.

Alexander þurfti að fara á spítala, en horfur eru góðar. „Ég er að ná mér og er hress,“ skrifaði hún síðar á Twitter. „Ég mun vera mætt aftur í bardagaham sem Lady Sif áður en varir! Þetta getur bara batnað héðan í frá!“, bætti hún við, en Alexander leikur vígakonuna Sif frá Ásgarði við hlið Chris Hemsworth, sem leikur ofurhetjuna Þór.

Alexander ku losna af spítala í dag, en slysið varð ekki meðan hún var í tökum, þó það hafi gerst á tökustað.

Tökur myndarinnar hófust fyrr í þessum mánuði undir stjórn leikstjórans Alan Taylor, sem þekktur er fyrir leikstjórn sína á Game of Thrones sjónvarpsþáttunum, og er myndin væntanleg í bíó í nóvember á næsta ári.