Kínversk framtíðarsýn

Kvikmyndir.is brá sér í Háskólabíó í gær sunnudag og sá kínversku RIFF myndina Mountains may depart. Þó að myndin sé skilgreind sem Drama, þá má einnig flokka hana sem vísindaskáldsögu, enda ferðast hún með okkur aftur og fram tíma, aftur til 1999, þá til nútímans og svo að lokum til ársins 2025 þar sem þriðji og síðasti hluti hennar gerist, í Ástralíu að megninu til.

mountains-may-depart-2015-003-tearful-parting-ORIGINAL

Í upphafsatriðinu er tónninn gefinn – hópur af fólki dansar af hjartans list við eitís-lagið Go West með bresku popphljómsveitinni Pet Shop Boys, með tilheyrandi handahreyfingum.

Myndin er létt þjóðfélagsádeila, heimur versnandi fer og allt það, og unga fólkið er að gleyma gömlum kínverskum gildum – það vill eignast peninga, læra ensku og lifa lífinu.

Aðalpersóna myndarinnar er ung kona árið 1999,  Zhao Tao. Hún býr í litlum kínverskum iðnaðarbæ og á vingott við tvo menn, en verður að endanum að gera upp á milli þeirra. Annar þeirra er vinalegi fátæki námuverkamaðurinn Liangzi, sem má sín lítils gagnvart hinum nýríka Zhang. Tao og Zhang giftast ( maður fær þó ekki á tilfinninguna að Tao eigi í miklum tilfinningalegum innri átökum, en gefið er lauslega í skyn að mögulega sé hún aðeins hrifnari af þeim fátæka ) og eignast soninn Dollar ( annar ádeilupunkturinn ) en brátt skilja leiðir þeirra aftur.

Eins og segir í söguþræði myndarinnar þá kynnumst við “ástum og örlögum þessara þremenninga yfir þrjú tímabil, á árunum 1999, 2014 og að lokum 2025. Um leið fáum við einstaka sýn á ört vaxandi gjána milli nýríkra fjármagnseigenda og vinnandi fólks í Kína.”

Eins og fyrr sagði er þetta létt þjóðfélagsádeila, ekkert sem kínversk stjórnvöld þurfa að hafa miklar áhyggjur af, í bland við oft bráðfallega myndatöku, og einstaka atriði sem skotið er inn pínulítið á skjön, til hrista skemmtilega upp í heildarmyndinni ( sbr. kolabíllinn sem er næstum því oltinn, flugvélin sem hrapar ofl. ).

Endurtekin þemu í myndinni eru dans og söngur og innsýn í kínverskar hefðir og matargerð, sbr. skemmtilegt útfararatriðið. Einnig er þónokkuð um sprengingar, hvort sem fólk er að skjóta upp flugeldum eða sprengja dýnamít í frosinni ánni, sér til gamans, að því er virðist.