Kínverskur náungi horfir til baka

shinsgJia Zhang-ke, a guy from Fenyang , eða Jia Zhang-Ke: Náungi frá Fenyang, var RIFF mynd gærdagsins hér á kvikmyndir.is. Í myndinni förum við með hinum rómaða kínverska leikstjóra Jia Zhang-ke, f. 1970,  í ferðalag til gamla heimabæjar hans Fenyang, heimsækjum tökustaði, gamla vini, og heyrum sögur af honum, fjölskyldunni, og lífinu undir alræðisstjórn, en leikstjórinn upplifði lífið á á tímum menningarbyltingarinnar í Kína ( 1966-1976 ). Á fullorðinsárum, og eftir að hann hóf að gera kvikmyndir hafa yfirvöld enn tangarhald á listamönnum, og á því fengu verk Zhang-ke að kenna framan af, eða þar til árið 2004 að hann fór að vinna verk sín með samþykki kínverskra yfirvalda, þannig að hægt væri að sýna þau í kínverskum bíóhúsum, þó eftirlitið haldi áfram.

Fyrir þá sem þekkja ekki verk Zhang-ke er þetta góð kynning og mann langar að sjá meira eftir að hafa séð þessa mynd. Hinir fá dýpri skilning á leikstjóranum, heimspeki hans, bakgrunni, lífssýn og skoðunum. Nýjasta mynd leikstjórans, Mountains May Depart, var einmitt sýnd á RIFF nú í ár.

Áhrifamest í myndinni var að heyra sögur af ritstjórn yfirvalda á verkum hans og annarra listamanna í Kína, og það hvernig, eins og Zhang-ke lýsir því í myndinni, faðir hans upplifði aldrei glaðan dag, og var stöðugt með áhyggjur af einkasyninum, að hann yrði handtekinn vegna verka sinna. Ennfremur þurfti fjölskyldan að líða fyrir það að afi hans hafði átt landskika þegar menningarbyltingin hófst.

Leikstjóri myndarinnar, Óskarsverðlaunahafinn Walter Salles, skilar hér áhugaverðu verki sem var bæði mjög ánægjulegt áhorfs og upplýsandi.