Lágstemmd saga með berum bossum

Nei hættu nú, Channing Tatum! Sá hefur heldur betur unnið mig á sitt band, því ég man ekki alveg hvenær ég sá síðast svona snögga, athyglisverða og skemmtilega þróun hjá einum leikara á jafnstuttum tíma – og þá í rauninni án þess að hann hafi eitthvað breyst. Fyrir kannski svona ári var þessi maður varla á radarnum hjá mér. Hann kom yfirleitt bara, setti lítinn stút á varirnar og fór. Hvorki leiðinlegur né fjölhæfur. Fyrst hélt ég að Guð hefði einungis skapað þennan mann til að gefa karlmönnum sem ekki eru fallegir, stæltir, sjarmerandi eða gæddir miklum danshæfileikum verra sjálfstraust. Mér sýnist samt að hann sé núna bara kominn til að vera, sem eru ekki vondar fréttir miðað við stöðuna núna.

Eins og Step Up og Dear John hafi ekki tryggt þessu fyrirsætufjalli ævilangan sess í hjörtum og brókum kvenna þá bætti hann The Vow inn á listann fyrr á þessu ári og varð vinsælli en nokkru sinni fyrr. Kemur síðan alveg upp úr þurru með 21 Jump Street stuttu síðar og sýnir einhverja snilldartakta í húmor. Kremið á kökunni liggur síðan hjá Magic Mike, þar sem dömur, herrar, bíóunnendur og skrækjandi skvísur fá miklu stærri bita af Tatum-kjötinu en nokkru sinni fyrr – plús meðlæti og eftirréttur.

Skoðum þetta aðeins… Ef ég snéri blaðinu aðeins við og myndi sjá í fjarska kvikmynd frá eilífðarnema úr kvikmyndaskóla (sem ert þú, Steven Soderbergh!) um veröld, félagslíf og (það sem mikilvægast er) atvinnulíf strippara, með kannski sjóðheitri leikkonu í aðalhlutverki ásamt álíka sætum vinkonum, þá þyrfti jarðýtu til að koma mér upp úr bíósætinu. Þess vegna skil ég fullvel að þessi mynd kemur í áttina að stelpum eins og fitusnauður ís sem bragðast eins og Ben & Jerry’s. Það má samt ekki láta markaðssetninguna blekkja mann. Magic Mike er ekki alfarið einhver mildari og betri útgáfa af Showgirls fyrir hitt kynið, heldur er þetta lágstemmd lítil mynd um fyrst og fremst áhugavert starfssvið, þar sem best skín í gegn að Tatum getur leikið (sjálfan sig) bara nokkuð vel. En meira að segja á mælikvarða Soderbergh-mynda er hún óvenjulega aðgengileg.

Soderbergh er að mínu mati bestur þegar hann gerir mainstream-myndir. Honum tekst nefnilega með þeim að hemla þokkalega á listræna fílingnum en þó eru þær nógu artí til að skara fram úr týpískum mainstream-myndum. Magic Mike er laus við helstu klisjur en frekar standard mynd engu að síður, efnislega séð, og Soderbergh virðist enn og aftur sýna einhliða (en raunverulegum) persónum mikinn áhuga án þess að gefa þeim einhverja sál. Augað á Soderbergh virðist heldur ekki ætla að fá nóg af þessum lituðu filterum sem prýða langflestar senur sem tengjast ekki strippi og finnst mér einhæfa litapallettan gera myndina aðeins of óspennandi til útlits. Greinilega er hér sóst eftir einhverjum köldum raunsæistón en eðlilegi heimurinn finnst mér oftar en ekki virka bara frekar niðurdrepandi frá sjónarhorni þessa leikstjóra. Soderbergh þarf innilega að fá sér oftar koffín líka, vegna þess að jafnvel í strippsenunum er stöku sinnum svolítill skortur á orku og villtu fjöri, en er það meira gert til að sýna að sagan snýst meira um starfið en ekki strippið. Greddan er samt á sínum stað og konurnar fá alveg nóg af rasskinnum, magavöðvum og fimum líkamshreyfingum.

Strákarnir eru allir í ljómandi góðum fíling. Tatum er klárlega á heimavelli þar sem sagan er lauslega byggð á hans eigin reynslu sem strippari. Það vantar ekki viðkunnanlegu hlýjuna í hann eða hjartastoppandi danshæfileika. Strákormurinn Alex Pettyfer (óþolandi aðalleikarinn úr I Am Number Four og Beastly) hefur sjálfur bætt sig heilmikið en haltrar töluvert á eftir hinum, en á móti því hef ég sjaldan séð Matthew McConaughey láta fara eins vel um sig og í þessari mynd. Yfirleitt er fundin ástæða til þess að leyfa honum að fara úr að ofan í bíómyndum en hér er hlutverkið byggt í kringum það að leyfa egóinu að njóta sín. Kjörin rulla fyrir manninn og halda félagarnir lífinu gangandi út örlátan en afslappaðan sýningartíma. Raunsæistónninn kemur best út í gegnum leikaranna. Samtölin virðast aldrei vera tekin beint úr handriti og er almennt samspilið trúverðugt. Þessi Cody Horn er hins vegar tröllvaxið ílát af sjarmaleysi og greyið stelpan er ein stærsta ástæðan fyrir dauðum köflum í rómantísku sub-plotti. Soderbergh hefði átt að velja sér einhvern annan fýlupúka en þennan.

Magic Mike er ekki fyrir þá (eða þær) sem búast við sveiflandi drjólum og stanslausu stuði. Soderbergh er ekki nógu hress gæi til þess að veita okkur slíkt og hefur aldrei verið. Myndin tekur sig mjög alvarlega en skilur pláss eftir fyrir húmor, sem er aldeilis kostur, vegna þess að hún sækist merkilega lítið í það að slá á dramatíska strengi. Ef létti andinn og húmorinn er „strípaður“ burt stendur ekkert eftir nema áhugaverð leiðindi með fínum leikurum, en lágstemmdi gírinn virkar yfir heildina og gerir hana hversdagslega á góðan hátt. Einnig leið mér eins og ég hafi lært ýmislegt um þessa sérstöku starfsgrein, sem er alls ekki neikvætt.


(7/10)