Silja Hauksdóttir leikstjóri nýrrar íslenskrar kvikmyndar, Agnes Joy, sem frumsýnd var fyrir helgi, segir að karlkyns útgáfa af Silju myndi sennilega gera öðruvísi myndir en hún geri. „[…] ég er farin að líta á þetta sem „superpower“, að hafa það sem við köllum kvenlega eiginleika sem listamaður. Það er eitthvað mjög dýrmætt sem kvenkynslistamaður hefur því hennar reynsluheimur er sannarlega annar heldur en hjá karlkyns kollega, og ég lít á það sem gjöf,“ segir Silja í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hún bætir við að hún sé þakklát fyrir að vera kona í þessum bransa, því henni finnist hún hafa „einhvern ofurkraft“; eins konar þriðja auga.
Agnes Joy fjallar um miðaldra konu á krossgötum sem á í flóknu sambandi við fólkið sitt, ekki síst við dótturina sem er ættleidd.
Í aðalhlutverkum myndarinnar eru Katla Margrét Þorgeirsdóttir sem leikur mömmuna og Donna Cruz sem leikur dótturina. Í helstu aukahlutverkum eru þeir Björn Hlynur Haraldsson, Þorsteinn Bachmann, Anna Kristín Arngrímsdóttir og Kristinn Óli Haraldsson, oft kallaður Króli.
Eins og fram kemur í grein Morgunblaðsins hefur Silja unnið mikið með konum, skrifað handrit með konum og gert kvikmyndir og þætti um konur, eins og Ástríði, Stelpurnar, Dís og nú Agnesi Joy. Hún segir að það vanti sögur um konur, og það sé ástæðan fyrir þessari áherslu. „Ég er samt ekki búin að leggja þær skyldur á mig að ég megi bara segja kvennasögur. En mig langar að gera það en mun alveg taka mér leyfi til að gera sögur með körlum ef ég vil. Eins og staðan er núna finnst mér mikil þörf á kvennasögum.“
Áhugi vaknaði í Hamrahlíð
Silja segist í viðtalinu hafa fengið áhuga á kvikmyndum í gegnum að leika sjálf í leikfélaginu í Menntaskólanum í Hamrahlíð. Hún hafi svo sem unglingur leikið aðalhlutverk í Draumadísum eftir Ásdísi Thoroddsen. „Þannig að á mínum fyrsta tökustað í lífinu var kona að stýra. Ég áttaði mig ekki á að það var ekki endilega normið.“
Í samtalinu segir Silja frá því að hugmyndin hafi fæðst upphaflega hjá rithöfundinum Mikael Torfasyni, sem hafi sent henni og meðhöfundum hennar, þeim Göggu Jónsdóttur og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, fullskrifað handrit. „Það tók okkur dálítinn tíma að finna hvað væri í þessu fyrir okkur. Við enduðum á að nota karakterinn frá honum, Agnesi. Hún er unglingur af erlendum uppruna af Skaganum; nokkurs konar fiskur á þurru landi. Það fannst okkur spennandi og tókum við þennan karakter frá honum og prjónuðum utan á hann fjölskyldu og samfélag.“
Hreyfði við miðaldra körlum
Myndin var á heimsfrumsýnd nýlega á kvikmyndahátíð í Busan í SuðurKóreu, og segir Silja að sér hafi þótt vænt um að miðaldra kóreskir menn hafi sagt myndina hreyfa við sér.
Silja mun á næstunni fylgja myndinni eftir út í heim á kvikmyndahátíðir, en næsta verkefni hennar sem leikstjóri er leikritið Kópavogskróníka í Þjóðleikhúsinu, en það er unnið upp úr skáldsögu Kamillu Einarsdóttur sem kom út fyrir síðustu jól. Þá er hún komin af stað með handrit að næstu bíómynd.
„Ég er með handrit að bíómynd í startholunum sem ég er að vinna með annarri konu, Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Við erum að skoða hina íslensku mósaíkfjölskyldu; nútímakokteilinn af mínum börnum, þínum börnum og okkar börnum og öllu sem því fylgir.“