Lin vill meiri Söruh Connor í Terminator

Fast and the Furious 5 leikstjórinn Justin Lin er mikið að pæla í Terminator 5 þessa dagana, en eins og við sögðum frá um daginn þá er Terminator eitt af verkefnunum sem hann er tengdur, og er að vinna að.

Lin segir í samtali við Moviehole, að á meðal þess sem hann langar að gera í Terminator 5 er að fá Söruh Connor aftur inn í söguna, en Sarah er móðir Johns Connor, sem verður leiðtogi upppreisnarmanna í framtíðinni og gereyðendur eru sendir úr framtíðinni til að drepa í nútímanum, fyrir þá sem ekki vissu!

Sarah kom stuttlega við sögu í Terminator 3, og lést þar úr hvítblæði, sem auðvitað gæti sett strik í reikninginn.

„Það góða við þessa myndaröð er að þú getur látið lögmálin breytast,“ segir Lin. „Þú hefur þarna tímaferðalagselementið. Þannig að það er hægt að taka tillit til alls sem hefur gerst áður, en samt að búa til nýja tímalínu. Sarah Connor er það stór persóna í þessum myndum, að ég hef alltaf verið undrandi á því hvað hún kom lítið við sögu í mynd nr. 3.“

Samkvæmt Empire blaðinu þá er Terminator 5 mjög stutt á veg komin, en Lin hefur samt átt vinnufundi með Arnold Schwarzenegger og eiganda réttarins fyrir myndunum Megan Ellison, en ekkert handrit er enn komið í gang.
„Margt af því sem við höfum rætt saman um hefur verið mjög gott,“ segir Lin. „En það er nauðsynlegt áður en lengra er haldið að finna rétta fólkið til að gera þetta [….]“

Það má þó segja um Lin að síðast þegar hann kom að fimmtu mynd í seríu, þ.e. Fast and the Furious 5, þá svínvirkaði það.