London á hjólum

Íslenska leikkonan Hera Hilmarsdóttir fer með eitt af aðalhlutverkunum í nýrri kvikmynd úr smiðju Peter Jackson. Um er að ræða myndina Mortal Engines sem er byggð á samnefndri bók eftir Philip Reeve. Jackson, sem er hvað þekktastur fyrir The Lord of the Rings-myndirnar skrifaði kvikmyndahandrit eftir bókinni og er einn af framleiðendum myndarinnar.

Leikstjórn er í höndum Christian Rivers og er þetta hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Rivers hefur áður unnið með Jackson en þó aðallega við tæknibrellur. Með önnur helstu hlutverk fara Hugo Weaving, Robert Sheehan og Stephen Lang.

Í bókinni er jörðin orðin ónothæf og mannskepnan hefur komið sér fyrir á vélrænum borgum sem keyra um á hjólum og gleypa aðra litla bæi til þess að nærast og komast af. Hera leikur útlagann Hester Shaw sem tilheyrir litlu þorpi á hjólum sem lendir í klóm stórborgarinnar London.

Universal Pictures opinberaði nýja stiklu úr myndinni í gær. Þar má sjá Heru átta sig á því að London sé komið til þess að gleypa litla þorpið hennar.

Myndin verður frumsýnd 14. desember á næsta ári. Stikluna má sjá í spilaranum hér að neðan.