Mad Shelia er kínversk Mad Max

Mad Max: Fury Road eftir George Miller sló í gegn bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum á síðasta ári, enda var útlit hennar einstakt og stemmningin í myndinni áleitin og spennandi.  Það var því aðeins tímaspursmál hvenær einhver nýtti sér stílinn og gerði mynd í sama „sniðmáti“ ef svo má segja.

Nú hafa Kínverjar gert einmitt þetta, en fyrsta stiklan fyrir Mad Shelia er nú komin út, og ef eitthvað er að marka stikluna er þetta einskonar útsölu-útgáfa Mad Max: Fury Road, eða grínútgáfa ( spoof ).

mad-shelia

Grínútgáfur af myndum eru vinsælt kvikmyndaform, og má nefna Meet the Spartans, sem var grínútgáfa af 300, og The Starving Games, sem var grínútgáfa af The Hunger Games, osfrv.

Stiklan er aðeins um einnar mínútu löng, en í henni má þó sjá fjöldann allan af tilvísunum í Fury Road. Aðalhetjan er kvenkyns, búningarnir svipaðir og ökutækin í sömuleiðis. Og eins og Mad Max: Fury Road þá lítur myndin út fyrir að vera einn langur bílaeltingarleikur.

Óvíst er hvort að Mad Shelia fái dreifingu á Vesturlöndum, en kannski læðist hún einn daginn inn á VOD leigur, eða Netflix.

En þangað til er hægt að njóta þess að horfa á stikluna aftur og aftur: