Málmhaus á leið í tökur – Ragnar gamall málmhaus

Ný íslensk kvikmynd Ragnars Bragasonar, Málmhaus, fer í tökur um miðjan nóvember nk., að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Myndin gerist á kúabúi snemma á tíunda ártugnum, 1992, og fjallar um stúlku sem býr þar ásamt fjölskyldu sinni og dreymir um að verða rokkstjarna, er utangarðs í þessu litla sveita samfélagi og er í uppreisn gegn öllu. Stúlkan er mikill aðdáandi málmtónlistar, þ.e. þungarokks, og er því svokallaður málmhaus eða metal head.

Málmhausinn sjálfan leikur Þorbjörg Helga Dýrfjörð og foreldra hennar leika þau Ingvar E. Sigurðsson og Halldóra Geirharðsdóttir.

Í samtalinu við Morgunblaðið segir Ragnar að tökur myndarinnar hefjist um miðjan nóvember nk. og megnið af þeim fari fram undir Eyjafjöllum og í nágrenni. Hann segir jafnframt að myndin sé dramatísk með glettum af húmor, eins og hann orðar það í viðtalinu.  Hann segist í viðtalinu vera gamall málmhaus sjálfur, og hafi byrjað að hlusta á þungarokk sem krakki og það hafi lengi kraumað í honum að gera kvikmynd þar sem þungarokk komi við sögu. „Þetta er ekki sjálfsævisöguleg mynd en maður nýtir ákveðna hluti úr eigin lífi,“ segir Ragnar í Morgunblaðinu.

Ragnar leikstýrir myndinni og skrifar handritið. Framleiðslufyrirtæki myndarinnar er Mystery Ísland ehf. (Kóngavegur, 2010, Sveitabrúðkaup, 2008,  Á annan veg, 2011) og meðframleiðandi er Hummelfilm frá Noregi.  Framleiðendur eru Árni Filippusson, Davíð Óskar Ólafsson og Hreinn Beck.

Ragnar hefur áður gert myndir eins og Börn, Foreldrar og Bjarnfreðarson, auk Vaktaseríanna.