Þó að það hafi ekki verið rætt í kynningum Marvel á Comic Con afþreyingarráðstefnunni í San Diego á dögunum, þá kveðst vefsíðan The Flickering Myth hafa heimildir fyrir því að Black Panther leikstjórinn Ryan Coogler, vinni nú hörðum höndum að framhaldi hinnar geysivinsælu ofurhetjumyndar.
Til að renna frekari stoðum undir þá frétt, þá virðist sem Martin Freeman muni snúa aftur til Wakanda, í hlutverk sitt sem Everett Ross.
„Eftir því sem ég kemst næst þá sný ég aftur,“ sagði Freeman, þegar hann var spurður af Collider um hugsanlega endurkomu í Black Panther 2. „Miðað við það sem ég veit um málið, þá mun ég leika í annarri Black Panther mynd. Þannig skil ég þetta. En hvenær það gerist, veit ég ekki.“
Freeman þreytti frumraun sína sem CIA leyniþjónustumaðurinn Everett Ross í Captain America: Civil War, áður en hann endurtók leikinn í Black Panther. Í mynd númer tvö mun hann hitta aðra leikara sem staðfest hefur verið að muni snúa aftur, Chadwick Boseman (T’Challa) og Letitia Wright ( Shuri ), en einnig er búist við að leikarar eins og Danai Gurira (Okoye), Angela Bassett (Ramonda) og Lupita Nyong’o (Nakia) verði öll í leikhópnum.
Þá hafa birst fréttir af því áður að Coogler vilji fá persónu Michael B. Jordan, Killmonger, aftur að einhverju marki, þó að forstjóri Marvel, Kevin Feige, hafi sagt að það væru eingöngu sögusagnir úr lausu lofti gripnar.
Enginn frumsýningardagur hefur verið ákveðinn fyrir Black Panther 2, en talið er að myndin verði í fyrsta lagi frumsýnd árið 2022.