Tvær skemmtilegar kvikmyndir koma í bíó á morgun, föstudaginn 28. janúar. Önnur er fyrir okkur fullorðna fólkið en hin er meira fyrir börnin og alla fjölskylduna.
Ný mynd frá Óskarsverðlaunaleikstjóranum Guillermo del Toro er ætíð tilhlökkunarefni, enda bíða manns einatt einhverjar furður í sagnaheimi hans, líkt og skemmst er að minnast í Óskarsmyndinni Shape of Water frá árinu 2017.
Í þessari nýjustu mynd leikstjórans, sem heitir Nightmare Alley, eða Martraðarsund í lauslegri snörun, erum við komin í tívolí þar sem gæðaleikarar fara með öll helstu hlutverk, fólk eins og Cate Blanchett, Bradley Cooper og Willem DaFoe.
Skoðaðu umfjöllun um búningana í myndinni
Opinber söguþráður er eftirfarandi: Þegar hinn heillandi, en ólánsami Stanton Carlisle kynnist spákonunni Zeenu, og hugsanalesaranum Pete í ferðatívolíi, fær hann gullmiða sem veitir honum hraðferð til frama og velgengni. Hann notar nýfengna þekkingu sína til að blekkja elítuna í New York á fimmta áratug tuttugustu aldarinnar. Með hina dyggðum prýddu Molly sér við hlið, þá skipuleggur Stanton bellibrögð til að svindla á stórhættulegum auðmanni og fær hjálp frá dularfullum geðlækni sem gæti þegar allt kemur til alls orðið hans erfiðasti andstæðingur….
Í samtali við NME.com segir del Toro að Nightmare Alley sé sú mynd hans sem hann er stoltastur af.
Engar ævintýraverur
Eins og blaðamaður NME minnist á þá eru engar ævintýraverur í myndinni, sem er í fyrsta skipti sem það gerist hjá del Toro. Spurður um það svarar del Toro: „Persónulega þá hef ég aldrei verið glaðari, en sem íbúi á þessari Jörðu hef ég aldrei verið meira stressaður. Það er einhver dauðadómur í loftinu, og sannleikur og lygi virðast vera í einhverri þokukenndri móðu. Það gæti verið umhverfislegt, persónulegt, eða samfélagslegt, en mér líður sannarlega eins og það sé einhver dómsdagur í loftinu.“
NME spyr leikstjórann um söfnunaráráttu hans og spyr hvort hann vilji eiga einhverja hluti sjálfur sem notaðir eru í myndinni. Hann segist vilja eiga Tarot spilin en einnig bók Pete, súrsaða barnið og lygamælinn.
Bridgeton stjarna í ensku útgáfunni
Eins og segir í opinberum söguþræði Langbesta afmælisins, eða Best Birthday Ever eins og hún heitir á frummálinu, þá fjallar myndin Kalla, lítinn kanínustrák sem býr á ástríku heimili ásamt foreldrum sínum og gæludýrum í útjaðri bæjarins. Kalli er vanur að eiga alla athygli foreldra sinna en allt breytist þegar Klara systir hans fæðist og það leiðir til óvænts ævintýris með bestu vinkonu Kalla, Móniku.
Það er gaman í afmælinu
Myndin er með íslensku tali en það er ein stjarna Netflixþáttanna Bridgeton, Jonathan Bailey, sem talar fyrir pabbann í upprunalegu útgáfunni. Bailey leikur Anthony Bridgeton í Bridgeton þáttunum.
Með hlutverk pabbans í íslensku útgáfunni fer Steinn Ármann Magnússon. Hér má sjá alla íslensku leikarana.
Leikstjóri Langbesta afmælisins er hinn sænski Michael Ekblad en hann hefur áður gert teiknimyndina Molly Monster árið 2016.
Höfundur bókarinnar sem teiknimyndin er byggð á er Rotraut Susanne Berner, 73 ára gömul, frá Stuttgart í Þýskalandi.
Hún er grafískur hönnuður og teiknari auk þess að vera barnabókahöfundur sem hefur selt bækur í hundruðum þúsunda eintaka um allan heim. Þá hefur hún myndskreytt meira en 80 bækur og hannað meira en 800 bókakápur.