Með/á móti: Captain America

(Með/á móti er fastur liður á síðunni þar sem tveir stjórnendur með ólíkar skoðanir á tiltekinni bíómynd segja nákvæmlega það sem þeim finnst (helst í minna en 300 orðum) og er undir notendum komið að velja þá hlið sem er raunsærri, skemmtilegri eða meira sannfærandi. En svo er alltaf séns á því að skoðun þín sé mitt á milli)

Axel Birgir Gústavsson vs. Inga Rós Vatnsdal

Venjulega eru flestir á einu máli varðandi Iron Man-myndirnar báðar og Thor, en eflaust eru mest skiptar skoðanir yfir The Incredible Hulk og Captain America: The First Avenger.

Avengers-niðurtalningin heldur áfram og að þessu sinni ætlum við að gefa manneskjunni á móti myndinni aðeins meira pláss til að tjá sig, enda er oftast aðeins betur tekið í þessa mynd heldur en ekki.

Sjáum hvað þetta fólk hefur að segja…

Axel segir:

Tony Stark er sjarmatröllið með tæknina, Thor er sérkennilega kvennagullið með góðvild í huga, en Steve Rogers er einfaldlega sönn hetja sem öðlast krafta sína EFTIR að hafa margsannað sig sem hetju. Af öllum Marvel Avengers-myndunum er myndin um dágóða fánaberann Captain America klárlega sú sem ég held mest upp á. Steve Rogers einn og sér, túlkaður snilldarlega af Chris Evans, heldur uppi myndinni mætavel og allt annað er bara kremið á kökuna.

Tónn og vinnsla myndarinnar minnir á hið besta poppkorn sem Spielberg getur boðið okkur- sem passar fullkomlega fyrir hetju eins og Captain America. Gullnu reglur hasarleikstjórnar um uppsetningu og afrakstur eru nýttar snilldarlega og ég skell myndinni klárlega á stall skylduáhorfs fyrir hvern sem stefnir í kvikmyndagerð- sérstaklega hasarmyndageirann. Persónurnar eru litríkar og líflegar, Stanley Tucci átti mun meira lof skilið fyrir kröftugu frammistöðu sína og tókst að grípa allsvakalega mann þó það sást langar leiðir hvað yrði um persónu hans. Tónstef Alan Silvestri eru frábær og verða lengi eftirminnileg fyrir hvern sem sér myndina- þetta er einfaldlega sígild kvikmyndatónsmíði. Handritið er vel strúktúrað og það er hvergi dauður punktur og myndinni tekst allt sem hún reynir, þetta er einfaldlega stórkostleg kvikmynd. SVONA líkar mér Hollywood ræmurnar mínar!

Inga segir:

Maður fær það á tilfinninguna að fólkið sem gerði Captain America sé sama um söguna, þau vilja nýta sér hana sem bakgrunn en ganga ekki nógu langt í að aðskilja þennan teiknimyndasöguheim frá þeim hryllilega raunveruleika sem seinni heimsstyrjöldin var og því myndast sagnfræðilegar villur. Auðvitað á maður ekki að fara í bíó og ætlast til þess að myndir séu 100% nákvæmar sögulega séð en þær eiga að vera nógu nákvæmar til að maður sé sáttur eða koma með nógu góðar ástæður eða útskýringar fyrir því að vera ekki nákvæmar, Captain America gerir hvorugt.

Myndin lítur rosalega vel út og hasaratriðin eru flott. Myndin byrjar einstaklega vel og maður heillast af litla horaða gaurnum með stóru draumana um að þjóna föðurlandinu sem er leikinn vel af Chris Evans. Þegar hann er loksins kominn á vígvöllinn og búinn að syngja og dansa eins og fífl (sem er eiginlega skemmtilegasti hlutinn) þá fer myndin að missa dampinn, akkúrat þegar keyrslan er að komast í gang dettur allt niður og hún nær sér ekki á strik aftur. Endirinn er mjög mikið anti-climax en það er hægt að færa rök fyrir því að hann hafi þurft að vera þannig til að færa Kafteininn inn í nútímann fyrir Avengers myndina. Ég ætla ekki einu sinni að fara út í hversu mikið ég vorkenni greyið Hugo Weaving sem er góður í að leika illmenni en fær hér eitt svo hræðilega klisjukennt að hann hefur þurft að taka á honum stóra sínum til að skila þessu eins vel og hann gerir.

Það eru nokkur atriði sem fá mig til að rúlla augunum, eitt af þeim er þegar Steve Rogers þarf að fara með vandræðalega sviðsatriðið sitt fyrir hermenn sem eru í herbúðum við víglínurnar og þeir snúast gegn honum,  á maður virkilega að vorkenna honum? Myndin gerir lítið úr því sem hermenn ganga í gegnum og í þessu atriði sérstaklega, maður á að vorkenna fíflinu sem er uppi á sviði þegar þeir eru nýkomnir aftur frá baráttu upp á líf og dauða. Ég vorkenndi þeim miklu frekar.

Myndin er fyrirsjáanleg og klisjukennd út í eitt, mér var nánast sama um karakterana því þeir gerðu ekkert óvænt eða spennandi. Þetta er mynd fyrir fólk sem elskar klisjur og sprengingar. Fyrir fólk sem er sama um sögu, landafræði og góða persónusköpun. Að mínu mati klárlega sísta Pre-Avengers myndin (fyrir utan kannski Iron Man 2).

Svo í lokin er það smá nitpick, þegar hetjan er á leið að bjarga föngunum frá Red Skull (aðallega Bucky vini sínum) og reynir að laumast inn óséður þá tekur hann með sér mjög svo áberandi rauða og bláa skjöldinn sinn og geymir hann á bakinu! Ef það er ekki gangandi skotmark þá veit ég ekki hvað er.

 

HVORU MEGIN VIÐ LÍNUNA ERT ÞÚ?