Nú hefur komið í ljós hver muni gera Superman lífið leitt í væntanlegri mynd um kappann, en það verður Michael Shannon sem fer með hlutverk ofurskúrksins Zod. Shannon hlaut Óskarstilnefningu fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Revolutionary Road frá árinu 2008 en hefur vakið hvað mesta athygli í þáttunum Boardwalk Empire.
„Zod er einn voldugasti óvinur Supermans en líka sá merkasti því hann hefur vissa innsýn í hetjuna sem aðrir hafa ekki.“ sagði leikstjóri Man of Steel, Zack Snyder. „Michael er mjög hæfileikaríkur leikari sem getur túlkað bæði grimmd og gáfur Zods, svo hann er fullkominn í hlutverkið.“
Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem Zod og Superman mætast á hvíta tjaldinu, en þeir börðust harkalega í Superman 2 frá árinu 1980 en þá fór Terence Stamp með hlutverkið. Eins og sumir vita er Zod, sem og fylgdarsveinar hans Non og Ursa, glæpamenn frá sömu plánetu og Ofurmennið, en faðir hetjunnar fangaði þau í annarri vídd stuttu fyrir eyðileggingu Krypton. Þau sleppa þaðan út og koma því til jarðar í leit að hefnd gegn síðasta meðlim ættarinnar sem niðurlægði þau.
– Bjarki Dagur