Moore leikstýrir Die Hard 5

John Moore, sem leikstýrði meðal annars Max Payne, Behind Enemy Lines og Flight of the Phoenix, hefur verið ráðinn til að leikstýra Die Hard 5. Eins og komið hefur fram áður þá var Noam Murro upphaflega orðaður við starfið, en framleiðendur Battle of Artemesia, sem er mynd sprottin upp úr myndinni 300, náðu að stela honum í það verkefni. Margir leikstjórar hafa verið nefndir, en að lokum var það aðalmaðurinn Bruce Willis sem fékk að vera með í að velja leikstjórann, og hinn írski Moore varð fyrir valinu, samkvæmt Empire kvikmyndaritinu.

Handritið skrifar Skip Woods, en í stórum dráttum mun myndin fjalla um það þegar hinn útúrpirrraði lögreglumaður John McClane fer ásamt syni sínum til Rússlands til að takast á við vandamál þar í landi.

Eins og segir í frétt Deadline.com þá á John Moore enn eftir að leikstýra ofursmelli ( blockbuster ), en aðeins ein mynda hans, The Omen, fór yfir 100 milljónir dala í tekjur. Die Hard 5 á þó góðan séns á að þéna fullt af peningum, amk. miðað við fyrri myndirnar. Síðasta Die Hard, Live Free Or Die Hard, þénaði til dæmis 384 milljónir dala á alheimsvísu, en kostaði aðeins 100 milljónir dala í framleiðslu.