Hið goðsagnakennda ítalska kvikmyndatónskáld Ennio Morricone, 86 ára, mun semja tónlistina við nýjustu Quentin Tarantino myndina, The Hateful Eight. Morricone hefur ekki samið tónlist við vestra í meira en 40 ár, en hann er þekktastur fyrir tónlist við spaghettívestra eins og The Good, the Bad and the Ugly og Once Upon a Time in the West.
Tarantino sagði frá þessu á Comic-con hátíðinni í San Diego í Bandaríkjunum nú um helgina, en þar birti hann einnig nokkur vel valin sýnishorn úr myndinni sem gerist í Wyoming eftir borgarastríðið í Bandaríkjunum.
Tarantino hefur áður notað tónlist eftir Morricone, í Inglorious Basterds frá 2009 og í Django Unchained frá 2012, en sagt var að það hefði ekki fallið Morricone í geð.
Það sem er sérstakt við þessa frétt er að Tarantino er þekktur fyrir að nota áður útgefna tónlist í myndum sínum, en nú verður tónlistin öll frumsamin af Morricone.
Tarantino sagði einnig á Comic-con að hann myndi sýna sérstaka 70 mm útgáfu af vestranum á Jóladag ,auk þess sem hann hygðist leikstýra þriðja vestranum á eftir The Hateful Eight.