Morricone í hljóðveri – nýtt Tarantino samstarf

Kvikmyndatónskáldið og goðsögnin Ennio Morricone, átti eina allra bestu kvikmyndatónlistina á síðasta ári, tónlistina sem hann samdi við mynd Quentin Tarantino, The Hateful Eight, en Morricone fékk Golden Globe verðlaunin fyrir tónlistina og er tilnefndur til Óskarsverðlauna sömuleiðis.

morricone-tarantino-2-620x418

Nýtt myndband er nú komið út þar sem Ennio Morricone sést vinna að tónlistinnni ásamt hljómsveit í Abbey Road hljóðverinu, en myndbandið er gefið út af Weinstein kvikmyndaverinu í tengslum við verðlaunahátíðirnar sem eru þessa dagana.

Um er að ræða tónlist við byrjunaratriði myndarinnar; L’Ultima Diligenza per Red Rock (versione integrale).

En ekki nóg með það heldur sagði Morricone, sem verður bráðum heiðraður með stjörnu á Hollywood Walk of Fame, við Deadline kvikmyndavefinn að hann og Tarantino hefðu ákveðið að vinna saman að nýrri mynd, sem ekki er vitað nánar hver verður.

„Tarantino hefur nú þegar sagt mér að það verði önnur mynd sem við munum gera saman. Ég sagði honum að í framtíðinni vildi ég hafa meiri tíma. Ég myndi vilja byrja að vinna með honum mun fyrr til að hafa meiri tíma til að hugsa um tónlistina, og einnig að skiptast á skoðunum við hann um hvað ég vil semja fyrir hann. Ég bið aldrei neinn leikstjóra að vinna með mér, en Tarantino sagði mér, „Ok, það verður annað skipti.“

Sjáðu Ennio Morricone að störfum hér fyrir neðan: