Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Þeir sem kunna að meta vandaðar, fyndnar, vel skrifaðar og frábærlega leiknar myndir mega alls ekki láta þessa mynd fram hjá sér fara, enda hefur hún fengið frábæra dóma gagnrýnenda og fjölda viðurkenninga. Sem dæmi um það má nefna að þau Rupert Everett og Julianne Moore voru bæði tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir leik sinn, samtök gagnrýnenda í London heiðruðu Jeremy Northon fyrir besta leik ársins og bæði handritið, búningahönnunin og förðunin fengu tilnefningu til BAFTA-verðlaunanna í ár. Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er Oliver Parker en handritið er byggt á samnefndu gamanleikriti Oscars Wilde. Hér segir af aðalsmanninum og glaumgosanum Arthur Goring sem þekktur er fyrir glæsimennsku og húmor. Hann er piparsveinn fram í fingurgóma og nýtur þess til fulls enda getur hann valið úr öllum þeim kvenkostum sem eru á lausu í London. En örlagadísirnar eru um það bil að fara að taka í taumana í lífi Arthurs. Dag einn kemur vinur hans, hinn mikilsvirti stjórnmálamaður Sir Robert Chiltern, til hans og biður hann um aðstoð í viðkvæmu máli. Þannig er mál með vexti að kvensnift ein, frú Cheveley, hefur komist að leyndarmáli úr fortíð hans og hótar nú að segja umheiminum frá því. Fari svo er ferill og æra Roberts að engu orðin og sá eini sem getur bjargað málunum er Arthur. Arthur getur að sjálfsögðu ekki neitað vini sínum um aðstoð en þar með er hann líka kominn á kaf í svika- og blekkingavef sem býður ekki upp á neina skynsama undankomuleið! Athyglisverð og vönduð kvikmynd sem er í senn heillandi og afar áhugaverð. Ég gef henni þrjár og hálfa stjörnu og mæli ég eindregið með henni
Stórskemmtileg bresk gamanmynd sem gerist undir lok síðustu aldar og fjallar um ríka iðjuleysingjann Arthur Goring (Rupert Everett) sem gerir lítið annað en að njóta lífsins og finna leiðir til þess að forðast allt sem kallar á ábyrgð og erfiði. Dag einn kemur konu nokkur í bæinn sem veit leyndarmál úr fortíð besta vinar Arthurs sem svo vill til að er þingmaður og reynir að fjárkúga hann til þess að mæla með málefni sem hann er á móti. Þetta hrindir af stað runu af atburðum sem þróast út í ótrúlega flækju byggða á misskilningi, óheppilegum tilviljunum og veikleika persónanna. Myndin var bráðskemmtileg út í gegn og það er varla að hún innihaldi dauðan punkt. Samtölin eru snilldarlega beitt og innihalda sum dálitla ádeilu á samfélag hástéttarinnar á þessum tíma. Sumt er fengið að láni úr leikritinu The Importance of Being Ernest, en höfundar myndarinnar þakka óbeint fyrir sig með beinni tilvísun í það verk (sem er eftir Oscar Wilde fyrir þá sem ekki kannast við það). Leikur er allur fyrsta flokks, Rupert Everett er afar sannfærandi í sínu hlutverki. Einnig standa Minnie Driver, Julianne Moore og Cate Blanchett sig frábærlega í sínum hlutverkum. Leikstjórn er líka til fyrirmyndar. Sumum gæti þótt sögusviðið (samfélag hástéttarinnar í Englandi á 19. öld) fráhrindandi, þá sérstaklega hvað varðar búninga og málfar en ég tel samt að myndin nái fljótt að vinna flesta á sitt band og þá sérstaklega fólk sem sækist eftir einhverju öðru en skotbardögum, hasar og klósetthúmor í kvikmyndum.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Framleiðandi
Miramax Films
Kostaði
$14.000.000
Tekjur
$18.535.191
Aldur USA:
PG-13
Frumsýnd á Íslandi:
3. desember 1999
VHS:
26. apríl 2000