Aðalleikarar
Varúð. Þeir sem ekki hafa húmor fyrir sjálfum sér eða hafa ekki átt í ástarsambandi um æfina ættu að láta vera að sjá þessa prýðilegu litlu gamanmynd. Allir aðrir ættu að sjá hana. Myndin fjallar um tvö ung pör í Prag sem fara með litlum fyrirvara í ferð á æskuslóðir stúlknanna. Þau komast að því að þegar á reynir eru sambönd þeirra ef til vill ekki eins traust og og þau hefðu haldið. Samtölin í myndinni eru á köflum alveg óborganlega fyndin og persónurnar svo gegnheilar að stundum finnst maður vera fluga á vegg heima hjá einhverjum. Myndin minnir að vissu leyti á á rómantískar kómedíur eins og When Harry Met Sally og að vissu leyti á myndir Woody Allen. Hér er vissulega ekki um neina unglingamynd að ræða en flest þroskað og vel gefið fólk ætti að skemmta sér vel á Sterku kaffi. Stærstu kostirnir við myndina er vel skrifað og snjallt handrit þar sem áherslan er á persónurnar og samspil þeirra. Nokkrar senur í myndinni eru svo fyndnar að fólk á frumsýningunni var í gólfinu af hlátri. Því má bæta við að myndin er afbragðsvel leikin, í henni er flott tónlist og leikstjórinn næmur á smáatriði. Þrátt fyrir að myndin sé greinilega gerð af vanefnum, þá líður hún aldrei fyrir það. Kvikmyndaleikstjórar virðast fá meira fyrir peninginn í Tékklandi en hér heima.