Aðalleikarar
Leikstjórn
Handrit
Þessi mynd er gerð eftir skáldsögu Patrick Süskind um mann með yfirnáttúrulegt lyktarskin sem fer að gera ilmvatn úr konum.
Myndin er mjög áhugaverð og vönduð í allan stað. Umhverfið og búningar virkar allt raunverulegt. Skíturinn, drullan og lyktin í loftinu eru næstum áþreifanleg. Mér fannst vanta meiri spennu en það var kannski ekki tilgangurinn með myndinni. Markmiðið virðist hreinlega vera frásögn af lífi þessa óvenjulega manns. Aðalhlutverkið leikur Ben Whishaw. Hann er ótrúlega sannfærandi, nafn sem maður þarf að muna eftir. Í aukahlutverkum eru stórlaxar á borð við Dustin Hoffman og Alan Rickman. Mjög áhrifarík mynd og frábær endir!
Þetta er dýrasta þýska mynd allra tíma (eða var það 2006).
Það vita það kannski ekki allir en Nirvana lagið Scentless Apprentice er byggt á skáldsögunni sem þessi mynd er gerð eftir. Nóg um það, Perfume fannst mér bara nokkuð góð og vel heppnuð og kom mér alveg í opna skjöldu þar sem ég hef aldrei lesið bókina heldur þekkti söguna bara lauslega. Myndin fjallar um mann(Ben Whishaw) sem hefur ofurmannlegt lyktarskyn(manni dettur í hug Daredevil og Wolvernie)og notar það til að háþróa ilmvötn. Sögusviðið er Frakkland á átjándu öld og okkar maður tekur upp á því að myrða konur og eima líkin til að nota vökvann í leyniuppskriftina. Perfume byggist á sterkri persónusköpun og er keyrð áfram af karakterum og tekur sinn tíma til þess að starta því en ég fann samt aldrei fyrir langdregni þrátt fyrir að sýningartíminn er yfir tvo tíma. Kraftmiklar þagnir eru líka til staðar og gefur það góða stemningu. Whishaw kemur sterkur inn og Dustin Hoffman og Alan Rickman slá heldur ekki feilnótu. Það sem ég hef út á Perfume að setja er að hún er á köflum full dramatísk fyrir minn smekk og stundum missir hún sig út í kjánaleg atriði sem hefði mátt fara betur. Perfume nær ekki að vera neitt meistaraverk en er mjög góð samt sem áður og fær þrjár stjörnur. Alveg áhorfsins verð.
Ég held að þessi mynd sé einhver sú siðbrenglaðasta kvikmynd sem ég hef séð lengi, en einhvern veginn þá náði hún að fela því fyrir mér. Öll myndin er byggð á hugarheimi morðingja sem finnst ekkert sjálfsagðara heldur en að gera það sem honum sýnist til þess að fá það sem hann vill, ég fór að venjast siðleysinu eftir aðeins fáeinar mínútur og það var ekki fyrr en tveimum klukkutímum inn í myndina þar sem ég fattaði það og á þeim punkti var ég orðinn það tengdur morðingjanum að ég gat ekki litið á hann með illum augum. Eins og nafnið bendir til þá fjallar myndin mikið um ilmvatn, aðalpersóna myndarinnar Jean-Babtiste Grenouille (Ben Wishaw) var fædd með þann eiginleika að geta þekkt lyktina af hverju sem er, en Babtiste var alinn upp á munaðaleysingjahæli og var mjög illa uppalinn og á þar af leiðandi erfitt með að skilja annað mannfólk. Lykt er það eina sem gefur honum lífsvilja og þegar hann finnur mest seðjandi lykt sem hann hefur lyktað þá gengur hann of langt til þess að eignast hana. Karakteruppbyggingin hans Babtiste var það vel uppsett að þegar að kom að þeirri stundu að ég átti að hata hann þá fór ég að finna til með honum. Það er örugglega rangt af mér að kalla þessa mynd siðlausa eða siðbrenglaða, en allavega þá var mínu siðferði rifið í sundur og kastað í einhvern ofn. Hljómar eins og spaug en ég er að reyna orða niðurstöður myndarinnar eins vel og ég upplifði þær. Öll kvikmyndagerðin sjálf var stórkostleg, myndatakan þá sérstaklega en allir leikararnir voru góðir í sínum hlutverkum og Ben Wishaw passaði nákvæmlega sem Babtiste. Perfume: The Story of a Murderer er nýtt fyrirbæri í kvikmyndaheiminum, en á sama tíma þá virðast margir ekki fíla myndina, einhvern veginn held ég að þetta tvennt sé tengt. Öll hnakkamenning Íslands má sleppa þessari mynd þar sem hún er ekki aðeins mjög löng heldur einnig of djúp fyrir þannig mannskap. Hinsvegar þá er aðalgalli myndarinnar í lengdinni, sagan missti fókusinn á pörtum en náði þó alltaf að koma sér aftur á braut. Ég tel Perfume sem eina af betri myndum ársins 2006, en ég get ekki lofað að lesandinn muni fíla myndina jafn mikið og ég gerði.
Ef þú vilt sjá almennilega og öðruvísi mynd, þá er þetta rétta myndin. Þessi mynd er mjög óvenjuleg og frábrugðin öðrum bíómyndum. Ef þú ert orðin/nn leið/ur á sömu leiðinlegu klisjunum og fyrirsjáanlegum endum þá mæli ég með að þú skellir þér á þessa mynd sem fyrst. Hún er alls ekki langdregin og mjög áhugaverð og sérstök mynd. Sjáðu þessa sem fyrst!
Perfume: The Story of a Murderer er byggð á samnefndri skáldsögu sem hefur vakið töluverða athygli. Myndin fjallar um strák sem hefur einstakt lyktarskyn. Strákurinn er alinn upp í einskonar þrælkunarvinnu en dreymir um, þegar hann er orðinn eldri, að læra að ,fanga lyktir' og búa til besta ilmvatn í heimi.
Myndin er vel gerð og gefur bókinni í raun ekkert eftir. Leikmyndin í myndinni er mjög flott og fáguð.
Að mínu mati er fyrrihluti myndarinnar mjög góður en því miður fer myndin versnandi og í lokin þá er farið út í algjört rugl, mesta rugl sem ég hef séð! Það var bókstaflega hlegið í kvikmyndahúsinu þegar ég sá myndina, þetta var fáránlegt.
Fyrir fólk sem vill meira en skemmtun út úr kvikmynd (eitthvað listrænt, eitthvað nýtt) þá er þetta eflaust ágætis mynd. En meðalmanninum sem leitar sér að góðri afþreyingu honum vil ég ráðleggja að fara á aðra mynd, nema hann kannski horfi fram að hléi, svo getur hann farið.
Ég gef myndinni tvær og hálfa stjörnu.
Um myndina
Leikstjórn
Handrit
Andrew Birkin, Bernd Eichinger
Vefsíða:
Aldur USA:
R
Frumsýnd á Íslandi:
9. febrúar 2007