Náðu í appið
Öllum leyfðÍ myndinni er ljótt orðbragð

Couples Retreat 2009

Frumsýnd: 23. október 2009

It may be paradise... but it's no vacation.

110 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 10% Critics
The Movies database einkunn 23
/100

Myndin segir frá fjórum pörum sem hafa þekkst í dágóðan tíma. Þau ákveða að fara saman í frí til eyjunnar Bora Bora. Gististaðurinn á eyjunni býður upp á sérstaka parameðferð sem gengur út á að betrumbæta hjónabönd. Þrjú af pörunum eru þó aðallega að fara til eyjunnar til að skemmta sér og njóta lífsins, en eitt parið er komið þangað til... Lesa meira

Myndin segir frá fjórum pörum sem hafa þekkst í dágóðan tíma. Þau ákveða að fara saman í frí til eyjunnar Bora Bora. Gististaðurinn á eyjunni býður upp á sérstaka parameðferð sem gengur út á að betrumbæta hjónabönd. Þrjú af pörunum eru þó aðallega að fara til eyjunnar til að skemmta sér og njóta lífsins, en eitt parið er komið þangað til að bjarga hjónabandi sínu. Fljótlega sjá áttmenningarnir að parameðferðin er engin paradís og ferðin breytist í eitthvað allt annað en áætlað var.... minna

Aðalleikarar

Notaleg mynd
Couples Retreat er hefðbundin Hollywood formúlumynd sem hefur það eitt að markmiði að skemmta fólki burtséð frá gloppum í handriti og misjöfnum leik leikaranna. Og það tekst. Maður skemmtir sér bara þrælvel á þessari mynd.

Í stuttu máli fjallar myndin um fjögur vinapör sem fara í frí til hitabeltiseyja til að bæta sambandið. Pörin halda allavega að um frí sé að ræða en þegar þau mæta á staðinn eiga þau að taka þátt í allskonar verkefnum sem eiga að bæta sambandið. Að sjálfsögðu fer allt úrskeiðis sem hægt er að fara úrskeiðis og fjölmargar aukapersónur krydda myndina og halda áhorfendum við efnið.

Leikarnir standa sig flestir vel. Þar fer fremstur í flokki Vince Vaughn. Karakterinn sem hann leikur er svipaður þeim karakterum sem hann hefur leikið undanfarið, kannski aðeins mýkri. Jon Fareau og Jason Bateman eru einnig traustir. Það reynir ekki eins mikið á kvenleikarana enda snúast flestir brandararnir um karlana. Það eru þeir sem lenda í skrýtnum aðstæðu, þeir verða afbrýðissamir út í jógakennarann, þeir vilja djamma og djúsa, þeir telja að sín sambönd séu pottþétt og svona mætti lengi telja.

Couples Retreat er notaleg mynd. Hún rennur vel og með mörgum kómískum atriðum. Hún hefur góðan boðskap og lætur manni líða vel. Mæli með þessari fyrir þá sem vilja gleyma stað og stund og sleppa frá Icesave og öllu þessu og skreppa í smá frí í huganum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ekki beint léleg, heldur meira löt
Þegar maður horfir á mynd eins og Couples Retreat þá býst maður sjálfkrafa við feel good-afþreyingu, og af hverju ekki? Hugmyndin er einföld og skemmtileg svo ekki sé minnst á að það eru þrír eða fjórir fyndnir menn (og þar að auki sjá tveir þeirra um handrit myndarinnar) og þrjár sjóðheitar konur í aðalhlutverkum. Það ætti að vera stutt á milli kostulegra atriða til að halda glottinu límt við varirnar en einhvern veginn hefur það einfalda markmið mistekist, þannig að eftir stendur alveg einstaklega löt og teygð gamanmynd sem ætti að vera sjarmerandi og skemmtilega vandræðaleg, en er í staðinn bara... vandræðaleg.

Það mætti halda að þeir Jon Favreau og Vince Vaughn (sem eru yfirleitt frábærir saman!) hafi bara sest niður og skrifað stutta beinagrind að handritinu með það í huga að það yrði mikill spuni á settinu, og þ.a.l. þyrfti ekki að vera mikið til staðar í handritinu. Annaðhvort það eða þeir notfærðu sér bara framleiðsluna sem leið til að geta farið í smá frí á sólarströndunum með leikarafélögum sínum, og myndin hafi þá bara verið aukaatriði til að græða smá pening. Það skiptir engu hver lykilástæðan var, á endanum skiptir aðeins afraksturinn máli, og það er grútleiðinlegt að hann hafi ekki verið upp á marga fiska.

Ég get samt eiginlega ekki sett út á leikaranna því þeir voru mjög fínir. Favreau og Vaughn stóðu sig þokkalega (a.m.k. sem leikarar en ekki pennar) og eins og venjulega fá þeir allar góðu línurnar. Jason Bateman var góður að venju (þótt hann sé alltaf jafn fastur í Arrested Development hlutverkinu) og Faizon Love var líka nokkuð viðkunnanlegur. Stelpan sem lék kærustuna hans var aftur á móti óþolandi. Malin Akerman, Kristin Davis og Kristen Bell voru mjög hressar og allar vel fáklæddar á pörtum, sem er ekkert nema góður hlutur. Þær tóku sig sérstaklega vel út í jógasenunni, og ég er viss um að margir karlmenn hafi viljað sett sig í spor Carlos Ponce (sem lék Salvadore) í því atriði, þ.e.a.s. þegar hann var ekki með rassgatið beint framan í andlitinu á Bateman.

En það að ná svona vel saman er aðeins hluti af markmiði leikaranna, restin gengur út á kómíska tímasetningu. Þar fór í verr, því í raun vantaði allan húmor í handritið, sem bitnar náttúrulega hvað mest á fólkinu á skjánum. Það eru nokkrar góðar línur annað slagið ("asstastic!?") en ekkert í líkingu við það sem áhorfandinn á von á. Myndin er líka ekki bara ábótavant í húmor, heldur klaufalega skrifuð almennt. Það er hellingur af ótrúverðugum og ýktum aðstæðum sem eiga sér ekkert samhengi við söguna nema bara til að fá áhorfandann til að hlæja. Hver einasti brandari með krökkunum er gott dæmi. Ég bjóst við hallærislegu laugh-track, sérstaklega alveg í lokin. Leikstjórinn teygir líka rosalega á mörgum senum og gjörsamlega blóðmjólkar hvern einasta brandara. Hvort sem brandararnir tengjast parameðferð, jóga, hákörlum eða sjálfsfróun þá er hvergi dregið línuna. Atriðin spilast bara út þangað til að það er ekkert eftir til að grínast með. Afar vandræðalegt.

Ég fíla samt hvernig myndinni er ekki sama um persónurnar sínar, en það versta er að hún fer ekki að sýna það fyrr en mjög seint. Hún er búin að vera svo upptekin við það að þrykkja misfyndnum bröndurum í mann að það hefur ekki gefist pláss fyrir persónusköpun fyrr en líður að lokum. Mér fannst eins og ég hafi átt að halda með þessum pörum allan tímann og virkilega viljað sjá þau ná betur saman, en mér var frekar sama og þó svo að myndin var með hjartað á réttum stað þá hefði hún átt að átta sig á því fyrr.

Vegna þess að það er svona langt á milli brandara þá virkar Couples Retreat miklu lengri en hún er, sem er ekkert of jákvætt miðað við það að hún er þegar 110 mínútur. Þegar hún er hvorki sjarmerandi né fyndin hefur maður ekkert að gera nema bíða og vona að næsta atriði virki betur, og það er góð lýsing á áhorfinu í hnotskurn. Ég var svo innilega að vonast til þess að hér væri á ferðinni meira fullorðins útgáfa af Swingers, sem var auðvitað skrifuð af Favreau. En svo var svo sannarlega ekki. Ímyndið ykkur frekar Forgetting Sarah Marshall með fleiri og þekktari leikurum, nema án brandaranna og hugljúfu ástarsögunnar. Ég myndi ekki einu sinni mæla með þessari mynd ef Akerman, Davis og Bell hefðu allar verið naktar.

Það hefði samt alveg verið sterkur plús!

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

19.10.2012

Kósýkvöld í kvöld

Það hugsa sér eflaust margir gott til glóðarinnar í kvöld, föstudagskvöld, að hreiðra um sig fyrir framan skjáinn með poppskálina í annarri hönd og fjarstýringuna í hinni, og njóta bíómyndanna sem í boði verða í ...

09.09.2012

Sófaspíran velur úr bunkanum

Dagskrá helgarinnar var/er ofsalega veik núna um helgina og hallast sú lýsing meira að staðreynd heldur en matsatriði. Yfirleitt gengur Sófaspíran út á það að vekja athygli á því þegar góðar myndir eru sýndar í...

09.09.2012

Sófaspíran: Betra seint en aldrei

Dagskrá helgarinnar var/er ofsalega veik núna um helgina og hallast sú lýsing meira að staðreynd heldur en matsatriði. Yfirleitt gengur Sófaspíran út á það að vekja athygli á því þegar góðar myndir eru sýndar í...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn