Náðu í appið
Öllum leyfð

Kurteist fólk 2011

(Laxdæla Lárusar)

Justwatch

Frumsýnd: 1. apríl 2011

95 MÍNÍslenska

Myndin fjallar um óhæfan verkfræðing sem lýgur sig inn í samfélag á Vesturlandi og þykist geta komið sláturhúsi staðarins í gang á ný, óafvitandi gengur hann inn í litla heimsstyrjöld sem ríkir í einkalífi íbúa og pólitík bæjarfélagsins. Verkfræðingurinn Lárus er haldinn allnokkrum ranghugmyndum um eigin getu. Dag einn tekur hann upp á því að skella... Lesa meira

Myndin fjallar um óhæfan verkfræðing sem lýgur sig inn í samfélag á Vesturlandi og þykist geta komið sláturhúsi staðarins í gang á ný, óafvitandi gengur hann inn í litla heimsstyrjöld sem ríkir í einkalífi íbúa og pólitík bæjarfélagsins. Verkfræðingurinn Lárus er haldinn allnokkrum ranghugmyndum um eigin getu. Dag einn tekur hann upp á því að skella sér vestur í Dali þar sem hann er fljótlega búinn að ljúga því að heimamönnum að hann sé stórfiskur og snilli sem geti endurreist starfsemi sláturhússins á staðnum. Það sem Lárus veit ekki er að um leið og hann byggir upp skýjaborgirnar þá er hann samtímis búinn að stimpla sig inn í alls kyns flækjur því það er sannarlega ekki allt með kyrrum kjörum í samlífi og samstarfi heimamanna. Reyndar logar allt undir niðri í illdeilum út af hinum ýmsu málum og blandast þar einkamál saman við pólitískan réttrúnað sem á stundum verður svo svæsinn að ekki má á milli sjá hverjir eru orðnir geggjaðir á ástandinu og hverjir ekki.... minna

Aðalleikarar

Svona eins og lífið
Ég fann mig knúinn til að skrá mig á þessa síðu til að skrifa umfjöllun um myndina eftir að hafa séð hana fá óverðskuldaða útreið í annarri gagnrýni.

Kurteist fólk er í kjarnann sagan um lífið. Það gerist oft ekkert mikið í lífinu heldur drögumst við áfram í gegnum ruglið sem það bíður upp á og reynum eftir bestu getu að komast út úr atvikum og upplifunum sem betri einstaklingar.

Í gegnum kvikmyndina fylgjumst við með Lárusi sem er leikinn af Stefáni Karli þar sem hann tekst á við lífið og pólitíkina út á landi. Ég verð að taka sérstaklega ofan af fyrir Stefáni Karli þar sem hann er í raun "Larger than life" leikari sem leikur með öllum líkamanum en Ólafi leikstjóra tekst að skapa persónu sem hefur tapað öllu, persónu sem ólgar að innan en getur ekki hleypt því út.

Einna áhugaverðast við kvikmyndina er hve raunveruleg íslensku notkunin er í myndinni ólíkt því sem svo oft hefur verið í íslenskum kvikmyndum þar sem allir segja setningarnar fullkomlega skýrt og bíða eftir að hinn aðilinn klári að tala.

Þó nokkrir vankantar séu á handritinu þá hafa handritshöfundar skilað því mjög vel frá sér, einna helsta vandamálið er þó ris myndarinnar sem nær ekki að verða nógu mikið í kringum síðari helming myndarinnar til að skapa kvikmyndalega upplifun sem hinn almenni áhorfandi leitar eftir.

Endurlitin í kvikmyndina gefa góða mynd af því erfiða lífi sem Lárus ólst upp við og þeirri miklu andúð sem það hefur fært honum á foreldra hans.

Mér fannst einnig áhugavert að heyra í vini mínum, sem er utan af landi tala um hve "spot on" Hilmir Snær hefði verið með upphafningu sjálfsins í gegnum það "mikilvæga" hlutverk sem mjólkurbússtjórinn er.

Því það skiptir ekki máli á hvaða samfélagi eða samfélagslegum aðstæðum einstaklingar eru það eru alltaf einhverjir sem reyna að upphefja sig í gegnum stöðu eða aðstæður til að viðhalda félagslegu valdi.

Kurteist fólk dregur einmitt mjög áhugaverða "micro" mynd af þjóðfélaginu sem við búum í, þar sem allir eru að reyna að koma sjálfum sér til framdráttar í gegnum vensl með brellum og klækjum. Þar sem hið félagslega net er undirstaða alls.

Kurteist fólk er þó ekki kannski fyrir alla heldur fellur á milli "mainstream" og "art house" kvikmynda og tel ég að það hjálpi ef fólk hefur búið út á landi.
Markhópurinn fyrir þessa mynd er eflaust 25 og yfir þar sem hún fjallar um vandamálin í lífinu en leitast ekki eftir að vera innantóm skemmtun.

ég gef henni 7/10 því hún hafði uppá eitthvað meira að bjóða en margar evrópskar kvikmyndir sem takast á við svipuð efni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vanda sig, Óli. Vanda sig!
Nú ætla ég kurteisislega að fjalla um hvers vegna þessi mynd er ein sú versta sem íslenska þjóðin hefur séð síðan ælufatan Heiðin leit dagsins ljós fyrir rúmlega þremur árum síðan. Þegar þessi texti er ritaður er ég einmitt nýstiginn útaf myndinni, enn með kjaftinn galopinn yfir hversu rosalega mikið hún þóttist hafa gert við nákvæmlega ekki neitt. Nei, án djóks... EKKI NEITT. Ég byrjaði að finna til með peningnum sem var sóað í þessi ósköp, og leikurunum sem hefðu getað nýtt tímann í eitthvað vitsmunalegra, eins og að horfa á málverk þorna.

Þessi mynd er svo andstyggilega leiðinleg að hálfa væri hellingur. Ég sit hérna að berjast fyrir því að muna hvað það var sem ég sá en eitthvað er unga minni mitt að bregðast mér. Mér tókst semsagt að finna íslenska bíómynd sem er svo auðgleymd að ég þarf stöðugt að renna yfir atburðarásina í huganum til að muna hvers vegna hún var svona sóðalega leiðinleg. Loks átta ég mig á því að það var ekki nema vottur af sögu til staðar, og það eina sem ég glápti á í 90 mínútur var fullt af hæfileikaríku fólki að kjafta út í eitt um bæjarpólitík sem fór bara endalaust í hringi og skilaði engri ásættanlegri niðurstöðu. Einnig fann ég vott af athyglisverðum persónusamskiptum (öll framhjáhöldin t.d.), en það hvarf ansi fljótt því það virðist eins og þessi mynd setji sér það djarfa markmið að vera jafn spennandi og kattarsandurinn heima hjá mér. Svo sýndist mér líka eins og myndin væri að gefa okkur smá bakgrunn á aðalpersónu myndarinnar, til að við myndum þá ná að tengjast henni almennilega og halda kannski upp á hana. Þetta reyndist ekki vera annað en tímaeyðsla og mjög athugavert dæmi um það hvernig einn leikstjóri getur klúðrað heldur einfaldri persónusköpun.

Ég á erfitt með að muna hvenær íslensk bíómynd skeit svona mikið upp á bak í flashback-senum (svo eitthvað sé nefnt). Þær eru hérna notaðar til að dýpka persónu Stefáns Karls, en það gengur svo illa að ég er við það að halda að það hafi verið ætlunin frá upphafi. Það misheppnast gjörsamlega að láta áhorfandanum vera annt um þennan mann, sem er einmitt frekar skrítið þar sem leikarinn stendur sig vel með það sem hann hefur. Reyndar eru allir leikararnir í myndinni býsna fínir en persónurnar eru allar óspennandi, sama hversu mikið er reynt að gera þær skrautlegar. Mér gat ekki staðið meira á sama um örlög þeirra. Tæknileg vinnsla er svosem ágæt en slíkt ásamt trúverðugum frammistöðum er einmitt tvennt sem Ólafur Jóhannesson hefur oftast náð fínum tökum á.

Ólafur má eiga það að vera með þeim virkari kvikmyndagerðarmönnum sem við höfum að okkur í dag en það sem ég hef séð frá honum sýnir mér einungis það að vinnubrögðin ekki réttlæta magnið. Hann er þ.a.l. líka með þeim áttavilltari kvikmyndagerðarmönnum sem við höfum. Það vantar augljóslega ekki áhugann en burtséð frá nokkrum ómerkilegum heimildarmyndum þá kann maðurinn bara ekki að segja sögu, hvað þá strúktúra slíka. Af verkum hans að dæma er eins og hann skrifi grófa prófíla á hverja persónu, smali síðan saman fullt af leikurum og spinnur svo alla rest.

Kurteist fólk þjáist nefnilega fyrir nákvæmlega sömu hluti og önnur mynd sem hann gerði, Stóra planið, nema sú mynd hafði örlítið litríkari persónur og skítsæmilegan spunahúmor í þokkabót. Annars eru báðar myndirnar stefnulausar að mörgu leyti og eru lítið annað en sería af atriðum sem reyna að móta heilsteypta sögu en gera það alls ekki. Myndirnar tvær fá líka þann mínus að enda gjörsamlega upp úr þurru, sem er enn eitt merkið um glataða strúktúrahæfileika Ólafs. Manni líður aldrei eins og “sagan” sé að klárast, rétt eins og maður finnur aldrei fyrir henni að takast á flug. Það er meira eins og kreditlistanum í lokin hafi leiðst það mikið að hann gat ekki meðhöndlað biðina lengur. Hann varð bara að poppa upp, þrátt fyrir að sagan hafi ekki einu sinni verið alveg búin! Lykilsenur bera sömuleiðis merki um fljótfærni og metnaðarleysi, en kannski ætti ég bara að vera þakklátur fyrir að hafa ekki fengið eitthvað verra þar sem þetta er greinilega það skásta sem fjórir klipparar gátu gert úr þessu öllu.

Orð fá því bara ekki lýst hvað þessi mynd er svæfandi og almennt pirrandi til áhorfs. Hún er eitt risastórt EKKERT og einungis þokkalegur leikur og fáeinar fyndnar línur koma í veg fyrir botneinkunn hjá mér.

2/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

01.10.2014

,,Gífurlega spennandi heimur''

Íslenska spennumyndin Borgríki II - Blóð hraustra manna verður frumsýnd þann 17. október næstkomandi. Myndin er sjálfstætt framhald myndarinnar Borgríki sem kom út árið 2011 og er eftir leikstjórann Olaf de Fle...

19.03.2013

Íslensk kvikmyndahelgi

Tugir íslenskra kvikmynda verða sýndar um allt land næstkomandi helgi og er frítt inn á þær allar. Tilefnið er hækkun framlaga í Kvikmyndasjóð Íslands og þar með bjóða íslenskir kvikmyndagerðarmenn, í samstarfi...

27.12.2011

Verstu myndirnar á árinu!

Það er komið að þeim tíma ársins þar sem botninn er skrapaður og ég get sko lofað ykkur því að 2011 sá sinn skerf af kalkúnum í bíó. Ef út í það er farið er þetta ábyggilega slakasta bíóárið sem ég man...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn