Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraMyndin vísar til eða sýnir notkun vímuefnaÍ myndinni er ljótt orðbragð

The Runaways 2010

(Runaways, Neon Angels)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

It's 1975 and they're about to explode

106 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 69% Critics
The Movies database einkunn 65
/100

The Runaways gerist árið 1975 í Bandaríkjunum. Cherie (Dakota Fanning) er komin á unglingsaldur og fylgja því mjög ákveðnir uppreisnartaktar. Hún klippir á sér hárið í óþökk foreldranna og er gagntekin af tónlist og stíl David Bowie, sem er ein stærsta tónlistarstjarna heims á þessum tíma. Á sama tíma er Joan Jett (Stewart) að leita allra leiða til... Lesa meira

The Runaways gerist árið 1975 í Bandaríkjunum. Cherie (Dakota Fanning) er komin á unglingsaldur og fylgja því mjög ákveðnir uppreisnartaktar. Hún klippir á sér hárið í óþökk foreldranna og er gagntekin af tónlist og stíl David Bowie, sem er ein stærsta tónlistarstjarna heims á þessum tíma. Á sama tíma er Joan Jett (Stewart) að leita allra leiða til að komast inn í tónlistarbransann og stefnir að því að setja saman hljómsveit eingöngu skipaða stelpum. Hún kynnist trommaranum Sandy West (Stella Maeve) og saman rekast þær á Cherie á klúbbi nokkrum og ákveða að fá hana til liðs við sig sem söngkonu. Smám saman verður svo hljómsveitin að veruleika. Eftir byrjunarörðugleika fá þær sitt fyrsta gigg og plötusamningur við Mercury Records fylgir stuttu seinna. En bransinn og frægðin sem fylgir gæti reynst bandinu ofviða...... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Fín en mátti ganga lengra
Allir sem horfa á The Runaways munu sjá það strax að Dakota Fanning er ekki lengur krúttlega barnastjarnan sem datt í lukkupottinn snemma á ferlinum (ekki þykjast neita því, hún lék m.a. á móti Sean Penn, Robert De Niro, Denzel Washington og Tom Cruise, og þá áður en hún varð 11 ára!). Nei, frá og með þessari mynd er hún búin að jarða saklausu ímynd sína og gerir það ekki bara með krefjandi hlutverki (þar sem hún tekur eiturlyf, fer í sleik við stelpur og gengur oft um í undirfötum), heldur hlutverki sem hún stendur sig virkilega vel í. Einnig reynir Kristen Stewart sjálf að fara eins langt út fyrir Twilight-ímynd sína og hún mögulega getur, og er alls ekkert síðri. Mér fannst ég sjá einmitt sterk merki um leikhæfileika þegar hún lék í Adventureland, en núna er ég öruggur um það.

En þrátt fyrir að vera vel leikin, þá er The Runaways ekkert svakalega góð mynd og ástæðan fyrir því er mjög einföld: Hún er alltof stöðluð. Ef þið hafið séð myndir eins og t.d. That Thing You Do og Rock Star þá ætti formúlan að vera heldur kunnugleg. Og þó svo að þessi mynd sé byggð á sönnum atburðum þá er það engin afsökun til að bjóða upp á svona dæmigerða frásögn. Það eru til ótal margar leiðir til þess að segja eina sögu, hvort sem hún er sönn eða ekki. Myndin er þar af leiðandi alltof "örugg," eins og hún sé að hemla of mikið á sér. Jafnvel þó svo að hún taki einhverjar áhættur við og við, þá hefði hún hiklaust mátt vera villtari, alveg eins og hljómsveitin var sem myndin fjallar um.

Þessi formúlukennda uppbygging fer sérstaklega í taugarnar á mér því mér finnst eins og að myndin hafi algjörlega misst af tækifærinu til að segja áhugaverða sögu um áhugaverðar manneskjur. Ég hefði glaðlega viljað meiri persónudýpt en í staðinn einblínir sagan of mikið á "ruglið" sem fylgir frægðinni, og hversu oft höfum við séð það áður?? Sérstaklega í mynd sem fjallar um upprísandi hljómsveit. En eins og ég tók fram hér að ofan þá eru þær Fanning og Stewart mjög góðar sem Cherie Currie og Joan Jett, en hefði myndin kafað betur út í líf þeirra (og kannski hina hljómsveitarmeðlimina líka, sem eru alveg látnir í friði) og persónuleika, þá hefðu þær getað orðið frábærar í þessum hlutverkum og myndin hefði líklegast skilið miklu meira eftir sig. Michael Shannon (sem brilleraði í Revolutionary Road) ber samt af í hlutverki ákafa umbans Kim Fowley. Langbestu senurnar í myndinni eru líka oftast með honum. Það því miður þýðir að ég telji ekki ákveðna kossasenu með, þar sem Twilight-gellurnar verða dálítið óþekkar. Sú sena mun ábyggilega standa hressilega upp úr minninu hjá sumum.

Það virtist svo margt vera hægt að gera með allt þetta efni, og þar sem ég hef mikinn áhuga á þessu tónlistartímabili og jafnvel einstaklingunum sem myndin fjallar um þá verð ég að segjast hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna hér. Leikurinn er samt góður, tónlistin fjörug og myndin forðast það mátulega vel að detta út í leiðindi.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn