Náðu í appið
Bönnuð innan 7 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið 2010

Frumsýnd: 10. september 2010

79 MÍNÍslenska

Pabbi hans Sveppa er að fara á gamalt hótel úti í sveit til að skrifa bók og Sveppi og Villi uppgötva að ekki er allt sem sýnist á hótelinu. Hlæjandi draugur, álög og pirruð hótelstýra halda þeim á tánum og svo slæst Gói óvænt í hópinn til að hjálpa þeim í ævintýrinu.

Aðalleikarar

Miklar framfarir. Villa í forsetann!
Aldrei bjóst ég við því að sjá einhvern tímann íslenska barnamynd sem kæmi með fullt af óbeinum en hryllilega áberandi tilvísunum í mynd eins og The Shining, en þar kom þessi mynd mér hressilega á óvart. Reyndar veit ég ekki hvort ég ætti að skammast mín fyrir það eða ekki en Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið þótti mér ekki bara aðeins betur heppnaðri bíómynd heldur en sú fyrsta (sem ég var alls ekki hrifinn af), heldur fyndnari og hnitmiðari. Auðvitað fékk ég samt líka kjánahroll á meðan henni stóð, þá aðallega í fyrstu og seinustu senunni, en tónninn er markvissari, söguþráðurinn meira líkur… tja… alvöru söguþræði og samspil þeirra Sveppa, Góa og Villa er undarlega skemmtilegt.

Aðstandendur virðast enn og aftur hafa skemmt sér konunglega í vinnunni sinni en sem betur fer leið mér ekki eins og Dularfulla hótelherbergið væri einungis gerð fyrir smákrakka, þótt hún sé það. Stíll myndarinnar og tónn fangar barnalega sakleysið á oft mjög skarpan máta og nýtir hún sér öll tækifæri sem gefast til að kæta fullorðna með fyndnum innskotum sem gera grín að öllu efninu. Fyrri myndin var bara kjánaleg og barnaleg en þessi kemur meira út eins og fjölskyldumynd sem tekur sig ekki par alvarlega, og virkar mun betur fyrir vikið.

Reyndar fannst mér flæðið frekar óstöðugt og myndin teygir vel á efninu sínu þrátt fyrir rétt svo 70 mínútna lengd. Það verður samt aldrei leiðinlegt að horfa á strákana, og heldur ekki Guðlaugu Ólafsdóttur, sem ofleikur eins og enginn sé morgundagurinn (á góðan hátt). Þröstur Leó er líka nokkuð fyndinn í hlutverki exposition-gæjans og Pétur Jóhann fær nokkuð góða litla senu alveg í endann. Sá sem vafalaust á þessa mynd er að vísu enginn annar en naglbítinn Vilhelm Anton. Ég veit ekki hvort sá maður sé bara svona góður að spinna eða handritið hafi bara gefið honum bestu línurnar, en hann er alveg næstum því frábær sem samnefnda mannabarnið. Karismað lekur af honum og þar að auki kaupi ég þennan leikara best af öllu þríeykinu sem 8 ára dreng. Gói er síðan í öðru sæti og (viti menn) Sveppi trónir í þriðja.

Myndin þjáist samt örlítið fyrir mistæka klippingu og (alveg eins og síðast) ódýrar tæknibrellur, sem reyndar fóru ekkert í mig nema í green screen-atriðum. Við erum auðvitað að ræða um mynd sem fyrst og fremst er ætluð börnum og á ég mjög erfitt með að sjá fyrir mér einhverja áhorfendur skella þessari mynd í DVD tækið án þess að einhver krakki sé nálægt (nema viðkomandi áhorfendur séu ekki alveg edrú). Dularfulla hótelherbergið er svosem ekki jafn viðburðarrík og forveri sinn, sem gæti þýtt að börn munu ekki fíla hana eins mikið, en hún reynir að minnsta kosti aðeins betur og það er eitthvað sem gamlingi eins og ég kann að meta.

6/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn