Náðu í appið
Bönnuð innan 7 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börn

Legend of the Guardians: The Owls of Ga'Hoole 2010

(Legend of the Guardians: The Owls of Ga'Hoole, Konungsríki Uglanna)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 22. október 2010

On his way to finding a legend...he will become one.

90 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 52% Critics
The Movies database einkunn 53
/100

Soren, ungri turnuglu, er rænt af uglum frá St. Aggi, sem er að því er virðist munaðarleysingjahæli, þar sem ungar uglur eru heilaþvegnar til að verða hermenn. Soren, og nýju vinir hans, flýja til eyjarinnar Ga'Hoole, til að aðstoða hinar ættgöfugu og vitru uglur sem þar búa, í bardaganum við ugluherinn sem hinir illu stjórnendur í St. Aggie eru að búa... Lesa meira

Soren, ungri turnuglu, er rænt af uglum frá St. Aggi, sem er að því er virðist munaðarleysingjahæli, þar sem ungar uglur eru heilaþvegnar til að verða hermenn. Soren, og nýju vinir hans, flýja til eyjarinnar Ga'Hoole, til að aðstoða hinar ættgöfugu og vitru uglur sem þar búa, í bardaganum við ugluherinn sem hinir illu stjórnendur í St. Aggie eru að búa til. Myndin er byggð á samnefndum bókum, þeim þremur fyrstu í seríunni. ... minna

Aðalleikarar

Unaðslegt útlit umvefur slappa mynd
Ef útlit réði öllu myndi ég örugglega ekki hugsa mig tvisvar um að gefa þessari mynd tíuna í einkunn. Þetta er sjónræn veisla á hæsta stigi og ég skal jafnvel ganga svo langt með að segja að ég hef ekki séð flottari mynd á öllu árinu hingað til. Tölvugrafíkin er bæði gullfalleg í litum og skuggalega raunveruleg, og ef þessarar myndar er notið á stórum skjá í hæstu upplausn eiga menn eftir að gapa yfir vinnunni sem er lögð í smáatriðin. Ég freistast til þess að segja að myndin sé nógu flott til að kalla skylduáhorf, en samviska mín treystir sér ekki í það því sagan er hvergi nógu athyglisverð til að verðskulda allt "vá-ið" á bakvið útlitið.

Ég get lofað ykkur að Legend of the Guardians myndi ekki skilja rassgat eftir sig ef hún héldi manni ekki dáleiddum yfir tölvuvinnunni allan tímann. Hver einasti maður með þroska veit það að útlit dugir ekki eitt og sér til að halda athygli manns nema innihaldið grípi mann líka. Það gerðist svo sannarlega ekki hér fyrir mig. Það má vera að Zack Snyder sýni enn einu sinni hversu fær hann er í að fá áhorfandann til að slefa úr dálæti yfir flottum slow-motion skotum en sem sögumaður er margt sem þarf að laga. Ég vona bara að Watchmen hafi ekki verið eitthvað einstakt tilfelli hjá honum til að segja sögu vel, en kallinn lagði vissulega extra meiri vinnu í þá mynd til að pirra ekki aðdáendur myndasögunnar. Legend of the Guardians þjáist nánast af sömu göllum og 300. Sagan er grautþunn og senur eru oftast frekar notaðar til að leggja áherslu á kúlið frekar en að skilja eitthvað högg eftir sig. Það slapp þó með 300 því sú mynd var talsvert einfaldari (og augljóslega svalari) en þessi. Guardians nær aldrei að þróa söguna sína vel því persónur eru alltof margar og allan tímann er hún að flýta sér að koma sér frá einni senu til annarrar. Það er ekki fyrr en í bardaganum í lokin þar sem hún virðist vita fullkomlega hvað hún er að reyna að gera.

Sagan er samt ekki bara óskipulögð, óheillandi og ófullnægjandi heldur undarlega fyrirsjáanleg og klisjukennd. Ég átti líka erfitt með að hugsa ekki til upprunalegu Star Wars stöku sinnum út myndina, og merkin voru stundum svo augljós að þetta var næstum því eins og paródía (“Trust your gizzard’’ er greinilega ugluútgáfan af “Use the force’’ – ekki láta eins og þið tókuð ekki eftir því). Annars var mér nákvæmlega sama um hverja einustu persónu (nema hugsanlega Digger - sem er hressilega talsettur af David Wenham) og hvorki hélt ég upp á baráttu góðu gæjanna né hataði illmennin nógu mikið. Magn persóna er samt klárlega stærsta vandamálið og frekar leið mér eins og ég hefði getað verið að glápa á pappírsskutlur frekar en þrí(eða tví-)víðar persónur. Mér líkaði þó við myrka tóninn og var ánægður að sjá hversu óvenju grimmt ofbeldið var miðað við barnamynd.

Þegar öllu er á botninn hvolft er Legend of the Guardians mynd sem ég á erfitt með að mæla með, en samt finnst mér líka erfitt að mæla ekki með henni því hún lítur svo glæsilega út. Það er varla stakan ramma að finna sem er ekki listaverk í sjálfu sér. Það er samt venjulega ekki markmið mitt að horfa á ævintýramyndir til að dást einungis að þeim. Mig langar í smá mat með sýningunni minni.

Og já, sequel-bait endirinn er rosalega ódýr. Það er munur á opnum endi og frásögn sem nennir ekki að hnýta alla hnúta. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að myndin er byggð á fyrstu þremur bókunum í 15 bóka seríu, en það er engin afsökun til að skilja svona margt eftir í lausu lofti.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn