Dakota Fanning útskrifuð úr barnaskólanum

Ný gagnrýni um myndina The Runaways hefur verið birt hér á kvikmyndir.is eftir Tómas Valgeirsson aðalgagnrýnanda síðunnar. Umfjöllunina má nálgast hér í fullri lengd.

Tómas er þokkalega sáttur við myndina og gefur henni sex stjörnur af tíu mögulegum. Í myndinni er leikkonan Dakota Fanning orðin fullorðin og tilbúin að hrista af sér barnastjörnustimpilinn. „Allir sem horfa á The Runaways munu sjá það strax að Dakota Fanning er ekki lengur krúttlega barnastjarnan sem datt í lukkupottinn snemma á ferlinum (ekki þykjast neita því, hún lék m.a. á móti Sean Penn, Robert De Niro, Denzel Washington og Tom Cruise, og þá áður en hún varð 11 ára!). Nei, frá og með þessari mynd er hún búin að jarða saklausu ímynd sína og gerir það ekki bara með krefjandi hlutverki (þar sem hún tekur eiturlyf, fer í sleik við stelpur og gengur oft um í undirfötum), heldur hlutverki sem hún stendur sig virkilega vel í,“ segir Tómas meðal annars í umfjöllun sinni.

Fleiri umfjallanir hafa einnig verið að birtast reglulega inni á kvikmyndir.is og ómögulegt að nefna þær allar. Þær nýjustu eru þó umfjöllun um hinn eitursvala óskarsverðlaunavestra Unforgiven eftir Jóhann Pálmar Harðarson. Jóhann segir m.a. í níu stjörnu dómi sínum: „Meistarinn sjálfur leiðir leikarahjörðina eins og svo oft áður. Á bak við sig hefur hann menn á borð við Morgan Freeman, Gene Hackman, Jaimz Woolvett og hinum látna Richard Harris, en allir standa þeir sig frábærlega. Ekki þarf nema að líta á þessi nöfn til þess að kvikmyndin fái ákveðinn gæðastimpil.“

Finnbogi Steinarsson og Sölvi Sigurður skrifa um Inception. Finnbogi vill ná mönnum niður á jörðina og gefur myndinni „aðeins“ 7 stjörnur, en Sölvi gefur myndinni tíu stjörnur eins og mjög margir hafa gert, eða fullt hús.

Að lokum vil ég minnast á umfjöllun Vilhelms Þórs Neto sem skrifar um myndina CJ7 eftir Stephen Chow. Vilhelm segir meðal annars: „Karakterarnir í myndinni eru skemmtilegir og sérstaklega aðal strákurinn sem kom mér stundum á óvart á köflunum.
Ég myndi segja að allir sem elska Stephen Chow ættu að horfa á þessari mynd.“

Annars bendum við fólki á að fylgjast vel með nýjum umfjöllunum sem birtast alltaf á forsíðunni um leið og þær eru samþykktar til birtingar.