Hogan sloppinn frá Ástralíu

Eins og við sögðum frá fyrr í vikunni þá lenti hinn sjötugi kvikmyndaleikari Paul Hogan, eða Krókódíla Dundee, í veseni í heimalandi sínu Ástralíu á dögunum þegar hann kom til landsins til að fylgja móður sinni til grafar. Skattayfirvöld brugðust við með því að kyrrsetja leikarann vegna þess að þau telja hann eiga eftir að borga skatt af 4 milljarða króna tekjum. Hogan segist hins vegar vera langtum fátækari en skattayfirvöld halda.
Það nýjasta í þessu máli er að Hogan hefur nú fengið leyfi til að yfirgefa landið, eftir samningaviðræður milli lögfræðinga Hogans og skattayfirvalda.
Hogan og skattmann hafa þó ekki leyst úr sínum ágreiningsefnum, en deilan hefur nú staðið í fimm ár.