Bandarískir karlar sem hata konur

Núna var að berast um allt internetið fyrsti trailerinn fyrir myndina The Girl With the Dragon Tattoo, sem er endurgerð á fyrstu myndinni í Millenium-þríleik Steigs Larsson (við þekkjum hana auðvitað sem Karlar sem hata konur, eða Män som hatar kvinnor). Við íslendingar könnumst nú heldur betur við hann enda tók hver mynd í kringum 30 þúsund manns í bíóaðsókn. Það verður heldur forvitnilegt að sjá hvernig þetta kemur út og maður hefur fulla ástæðu til að vera bæði spenntur og kvíðinn. Kostirnir virðast vera þeir að David Fincher er við stjórnvölinn, leikarahópurinn er flottur (Daniel Craig, Christopher Plummer, Stellan Skarsgaard o.fl.) og Trent Reznor sér um tónlistina.

Það neikvæða er líklegast það að myndin er á ensku og er látin gerast í Svíþjóð (persónurnar halda m.a.s. sömu nöfnum – sem er frekar einkennilegt) og þar að auki er hátt í ómögulegt að trompa þann magnaða leik sem Noomi Rapace sýndi í frummyndinni (og meðfylgjandi framhaldsmyndum). En þetta kemur nú allt saman í ljós nú í vetur.

Annars verð ég að benda á það að þessi trailer er í svokallaðri sjóræningjaútgáfu (hann er svoleiðis líka á öðrum bíóvefjum) og ætti að lenda í góðum gæðum á næstu dögum. En ef þið eruð að springa úr forvitni, þá bendi ég á linkinn hér fyrir neðan. Um er svokallaðan redband trailer að ræða, og það þýðir einfaldlega það að hann má sýna brjóst og blóð. Ekki leiðinlegt. Tónlistin er ekki svo slæm heldur.

Maður verður nú að gefa Sony Pictures smá hrós fyrir skemmtilega „gritty“ markaðssetningu.

T.V.