Aðalleikona valin í mynd um Playboy kanínu

Agnes Bruckner, leikkona í læknaþáttunum Private Practice, hefur verið valin til að leika Playboy kanínuna og leikkonuna Önnu Nicole Smith í nýrri mynd sem verið er að gera.

Myndin fjallar um líf og dauða Anna Nicole Smith, en hún lést langt fyrir aldur fram árið 2007.

Óskarsverðlaunaleikarinn Martin Landau mun leika eiginmann Önnu, olíubaróninn háaldraða J. Howard Marshall. Myndin ber vinnuheitið The Anna Nicole Story, og leikstjóri myndarinnar verður Mary Harron, sem meðal annars skrifaði handritið að og leikstýrði American Psycho.

Í myndinni verður sagt frá uppvexti Smith í litlum bæ í Texasfylki í Bandaríkjunum þar til hún er valin til að verða Guess gallabuxnafyrirsæta og Playboy stjarna. Þá verður einnig sagt frá hjónabandi hennar og olíuauðkýfingsins J. Howard Marshall, sem var 89 ára þegar þau giftust. Marshall lést ári eftir að þau giftu sig, eða árið 1995. Smith var einnig aðalpersónan í fyrsta raunveruleikaþætti E! sjónvarpsstöðvarinnar.

Aðalframleiðendur myndarinnar eru þeir Craig Zadan og Neil Meron ásamt Judith Verno. Handritið skrifa þeir John Rice og Joe Batteer. Framleiðsla myndarinnar fer í gang innan tveggja vikna.