Eurovision herferðin sem aldrei varð – „Frekar súrrealískt að horfa á hana“

Til stóð að tjalda öllu til fyrir markaðsherferð kvikmyndarinnar Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga áður en kórónuveirufaraldurinn skall á. Sem dæmi var áætlað að dúettinn Fire Saga myndi koma fram á Eurovision-keppninni í Rotterdam þetta árið áður en henni var aflýst.

Þetta kemur fram í ítarlegri grein fréttamiðilsins Entertainment Weekly um gerð Eurovision-myndarinnar. Í umfjölluninni er meðal annars rætt við leikstjórann, David Dobkin, um vinsældir lagsins Ja Ja Ding Dong og forsprakka Gagnamagnsins, Daða Frey Pétursson.

Vissi hvað var í vændum

Líkt og festir ættu að vita fara bandarísku leikararnir Will Ferrell og Rachel McAdams með hlutverk Íslendinganna Lars Erickssong og Sigrit Ericksdottir. Saman skipa þau hljómsveitina Fire Saga og keppa fyrir hönd Íslands í Eurovision með kostulegum árangri. Fjöldi íslenskra leikara fara með hlutverk í myndinni og hefur sjaldan fengist betri landkynning á þessum framleiðsluskala í Hollywood.

Myndin vakti mikla athygli í sumar þegar hún var frumsýnd á streymisveitu Netflix. Húmorinn féll almennt vel í kramið hjá almennum áhorfendum og kom bænum, og laginu, Húsavík, kirfilega á kortið. Einnig var mikið vitnað í Hannes Óla Ágústsson leikara með beiðnum um að heyra lagið Ja Ja Ding Dong.

Fjölmargir íslenskir tónlistarmenn fengu óskir í framhaldinu um að lagið góða yrði spilað á viðburðum og voru sumir fljótt komnir með nokkra leið á því. Daði Freyr er þar engin undantekning og segir hann við Entertainment Weekly að hann hafi fengið margar slíkar beiðnir sjálfur á eigin samfélagsmiðlum.

„Um leið og ég sá Ja Ja Ding Dong senuna vissi ég að þessar athugasemdir yrðu út um allt,“ segir tónlistarmaðurinn.

Daði Freyr birti ábreiðu sína af Ja Ja Ding Dong í ágúst síðastliðnum, að vísu með þeim inngangi að þetta yrði í fyrsta og síðasta skiptið sem hann spili lagið.

Ábreiðuna má finna hér:

https://www.youtube.com/watch?v=jkV8SeNW_Nc

Súrrealísk upplifun á stóru ári

Spurður um álit sitt á Eurovision-myndinni svarar Daði Freyr jákvæður. „Ég skemmti mér yfir henni. Ég sækist ekki lengur jafn mikið í yfirdrifnar og kjánalegar bíómyndir og áður, en það voru mörg fyndin atriði,“ segir Daði Freyr og bætir við:

„Það er líka frekar súrrealískt að horfa á hana sama ár og ég átti að keppa fyrir hönd Íslands.“

Þegar umræðan berst að laginu Ja Ja Ding Dong við leikstjóra myndarinnar segir hann útbreiðsluna hafa komið sér á óvart.

„Þetta lag öðlaðist alveg sitt eigið líf og varð einhverra hluta vegna að aðallagi myndarinnar, þrátt fyrir alla hina frábæru tónlistina í henni,“ segir Dobkin.

Smáskífan á ís

Leikstjórinn varpar nánara ljósi á metnaðarfullar áætlanir framleiðenda með markaðssetningu myndarinnar og þykir miður að ekki hafi orðið úr því. Framleiðendur höfðu jafnframt búist við því að sýna hana í kvikmyndahúsum í tvær vikur.

Dobkin segir líka eina hugmyndina hafa verið að gefa út smáskífu með laginu Volcano Man og vonast til að koma laginu á vinsældarlista. Leikararnir Ferrell og McAdams áttu síðan að eiga gestainnkomu með atriði í Rotterdam, í gervi þeirra Lars og Sigrit.

„Þetta stoppaði allt með COVID og Eurovision var aflýst. Við gátum í raun ekki markaðssett myndina vegna alls sem er búið að vera í gangi. Fólk hefur einnig verið að mótmæla um götur Bandaríkjanna og okkur fannst ekki rétt að hunsa allt slíkt,“ segir leikstjórinn.