Baltasar segir skilið við hundamynd Wahlbergs

Nýr leikstjóri hefur verið ráðinn fyrir kvikmyndina Arthur the King, mynd sem Baltasar Kormákur átti upphaflega að leikstýra. Það er breski leikstjórinn Simon Cellan Jones sem tekur við keflinu, en hann hefur marga fjöruna sopið í sjónvarpsþáttagerð. Á meðal þátta má nefna Boardwalk Empire, Jessica Jones og Ballers.

Arthur the King segir frá götuhundinum Arthur sem vingast við fyrirliða sænsks liðs sem tók þátt í Adventure Racing World Championship árið 2014 í Amazon-skóginum. Umræddur fyrirliði er Mikael Lindnord, höfundur bókarinnar Arthur: The Dog Who Crossed the Jungle to Find a Home. Myndin er byggð á bókinni og segir hún frá sambandi höfundarins við götuhundinn Arthur, sem Lindlord tók að sér eftir ævintýraför þeirra um Ekvador.

Það er stórleikarinn Mark Wahlberg sem fer með hlutverk fyrirliðans í kvikmyndinni og hefði þetta orðið þriðja samstarfsverkefni þeirra Baltasars.

Frá þessum leikstjóraskiptum er greint frá á vef Deadline og kemur þar fram að Baltasar hafi stigið frá verkefninu þar sem það rakst á annað sem er á dagskrá leikstjórans.

Baltasar er með mörg járn í eldinum þessa dagana og vinnur framleiðslufyrirtæki hans, RVK Studios, að sjónvarpsþáttunum Katla og þriðju seríu Ófærðar, sem gefin verður út á Netflix á næsta ári. Báðar þáttaraðir eru unnar í samstarfi við streymisrisann.