Nielsen vill verða Marvel óþokki

Í  hnefaleikamyndinni og Rocky framhaldinu Creed II, sem sýnd er þessa dagana í bíó hér á Íslandi,  mætir danska leikkonan Brigitte Nielsen aftur til leiks í hlutverki sínu sem Ludmilla Drago, sovéskur gullverðlaunahafi, og fyrrum eiginkona og talsmaður sovéska höfuðsmannsins og bardagatröllsins Ivan Drago, sem Dolph Lundgren leikur.

Í nýju viðtali við vefþáttinn The Hollywood Reporter In Studio, segir Nielsen frá því hvernig upplifun það var að fara aftur í hlutverkið. „Þetta var svo óvænt,“ sagði Nielsen um það að leika Ludmillu á ný. „Ég þurfti að klípa mig ítrekað, því það að leika hana á ný eftir 33 ára hlé var hálf útilokað, þannig að þetta var mjög tilfinningaþrungið fyrir mig.“

Gestahlutverki Nielsen í myndinni var haldið leyndu, þannig að hún var óvænt leyndarmál þegar myndin var frumsýnd.

„Aðdáendurnir voru yfir sig hrifnir. Þeir vildu fyrir alla muni fá að sjá Ludmillu, hvort sem það voru 20 sekúndur, mínúta, tvær mínutur eða klukkustund,“ sagði Nielsen. „Miðað við það sem ég hef heyrt þá eru allir mjög ánægðir með þetta og ég, auðvitað, er það líka.“

Nielsen ræddi einnig um að vera hluti af Marvel kvikmyndaheiminum, en hún lék aðalhlutverkið í Red Sonja frá árinu 1985, en myndin var byggð á Marvel teiknimyndasögu. „Mig langar að hrópa úti á götu, „Ég er hluti af Marvel heiminum!“  Ég elska Marvel persónur og mig langar að koma til baka.“

En leikkonan er ekki að hugsa um að endurtaka hlutverk sitt sem Red Sonja, heldur sér hún annað hlutverk fyrir sér. „Ég sé mig fyrir mér í annarri Marvel sögu þar sem ég leik óþokkann, þar sem ég get slegist og hrætt líftóruna úr ykkur öllum. En ég mun taka það sem býðst. Mér finnst alltaf mikil spenna í kringum þrjótana,“ sagði Nielsen m.a.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið við leikkonuna: