Nolan vill Weisz í Dark Knight Rises

Breska leikkonan Rachel Weisz gæti tekið að sér hlutverk í næstu Batman mynd, Dark Knight Rises.
Leikstjórinn Christopher Nolan hefur óskað eftir því við leikkonuna að hún verði með í myndinni, en nú síðast var Tom Hardy ráðinn til að leika í myndinni. Samkvæmt vefsíðunni Deadline.com er Rachel á meðal nokkurra Hollywood leikkvenna sem Nolan er að bera víurnar í fyrir þetta hlutverk, en einnig koma til greina þær Blake Lively, Natalie Portman og Anna Hathaway.
Myndin, sem enn er ekki komin með fastmótaðan aðalþorpara verður að öllum líkindum tekin að alfarið í IMAX formati, en ekki í þrívídd, eins og búist hafði verið við. Christian Bale mun leika Bruce Wayne/Batman í myndinni, sem á að frumsýna í júlí 2012.
Rachel Weisz er með nokkur verkefni í farvatninu, þar á meðal Dream House, þar sem hún leikur á móti Daniel Craig auk þess sem hún mun að öllum líkindum leika aðalhlutverkið í spennu – kynferðis dramanu 360.