Nýir dómar komnir inn um myndir helgarinnar

Þrjár myndir voru frumsýndar nú um helgina í íslenskum bíóhúsum; Hop, Sucker Punch og Kurteist fólk. Komnir eru inn glóðvolgir dómar hér inn á kvikmyndir.is um tvær síðarnefndu myndirnar frá Tómasi Valgeirssyni, aðalgagnrýnanda síðunnar, en dómur um Hop er væntanlegur innan tíðar.
Það er skemmst frá því að segja að Tómas er ekkert yfir sig hrifinn af myndunum og gefur Kurteisu fólki falleinkunn, eða tvær stjörnur af tíu mögulegum, en Sucker Punch fær þremur meira, eða fimm af tíu.

Tómas segir meðal annars um Kurteist fólk: „Þessi mynd er svo andstyggilega leiðinleg að hálfa væri hellingur. Ég sit hérna að berjast fyrir því að muna hvað það var sem ég sá en eitthvað er unga minni mitt að bregðast mér. Mér tókst semsagt að finna íslenska bíómynd sem er svo auðgleymd að ég þarf stöðugt að renna yfir atburðarásina í huganum til að muna hvers vegna hún var svona sóðalega leiðinleg. Loks átta ég mig á því að það var ekki nema vottur af sögu til staðar, og það eina sem ég glápti á í 90 mínútur var fullt af hæfileikaríku fólki að kjafta út í eitt um bæjarpólitík sem fór bara endalaust í hringi og skilaði engri ásættanlegri niðurstöðu,“ segir Tómas í harðorðum dómi sínum.

Í umfjöllun sinni um Sucker Punch segir Tómas meðal annars: „Asnalegast er samt hvað sagan þykist vera snjöll með því að segja dæmisögu inn í annarri dæmisögu. Þetta hefði getað opnað dyr að fleiri hugmyndum en því tækifæri er sóað. Þið skiljið hvað ég á við þegar/ef þið sjáið myndina, annars skiptir það svosem engu máli. Snyder reynir augljóslega að vera Christopher Nolan með því að koma með vísbendingar og pælingar sem eiga að gera annað áhorfið á myndinni ríkara, en hann nær bara ekki þeim hæðum því kúlið skiptir meira máli heldur en sagan. Ef Snyder er ósammála þessu þá er hann mun verri kvikmyndagerðamaður en ég áður fyrr hélt. Orð eins og persónusköpun virðist líka vera algjör latína í hans augum, allavega hér,“ segir Tómas.

Smellilð hér til að lesa allan dóm Tómasar um Kurteist fólk, og hér til að lesa allan dóm Tómasar um Sucker Punch.