Kvikmyndir.is sóttu hátíðarfrumsýningu myndar Ísoldar Uggadóttur, Andið eðlilega í gær, en í Háskólabíó var fullur salur af fólki og viðtökur við myndinni voru mjög góðar. Hér fyrir neðan má sjá mynd af leikurum og öðrum aðstandendum í lok sýningar.
Andið eðlilega er áhugaverð saga um íslenska fjölskyldu og hælisleitanda sem bæði eiga í basli hver á sinn hátt, en örlög þeirra tengjast óvænt. Myndin heldur manni kirfilega við efnið allan tímann. Leikurinn góður sem og kvikmyndataka og yfirbragð allt.
Eins og segir í tilkynningu frá Senu þá fléttar myndin saman sögum tveggja ólíkra kvenna, hælisleitanda frá Gíneu-Bissá og ungrar íslenskrar konu sem hefur störf við vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Leiðir þeirra liggja saman á örlagastundu í lífi beggja og tengjast þær óvæntum böndum.
Leikstjóri kvikmyndarinnar, Ísold Uggadóttir, hlaut meðal annars verðlaun sem besti leikstjórinn í flokki alþjóðlegra kvikmynda á Sundance hátíðinni.
Auk þess hlaut kvikmyndin Fipresci-verðlaun alþjóðlegra gagnrýnenda á Gautaborgarhátíðinni.
Leikarar: Bebetida Sadjo, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Patrik Nökkvi Pétursson
Andið Eðlilega er sýnd í Smárabíói, Háskólabíói, Borgarbíó Akureyri og Laugarásbíói.
Kíktu á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: