Nýtt í bíó – Star Trek: Beyond!

Samfilm frumsýnir á morgun, miðvikudaginn 20. júlí, kvikmyndina Star Trek Beyond í Sambíóunum Álfabakka, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, Smárabíói, Selfossbíói, Ísafjarðarbíói og Bíóhöllinni Akranesi.

star trekekeke

Áhöfnin á Enterprise leggur upp í áhættusama könnunarferð til ystu marka hins þekkta alheims og verða þar fyrir árás hættulegs óvinar sem þau hafa aldrei komist í kast við áður – óvinar sem er staðráðinn í að gera út af við þau í eitt skipti fyrir öll.

Myndin verður samkvæmt tilkynningu frá Samfilm, frumsýnd á sama tíma um allan heim og meira að segja degi fyrr á Íslandi en víðast hvar annars staðar.

Leikstjóri að þessu sinni er Justin Lin sem gert hefur fjórar af Fast and Furious myndunum, þar á meðal þá sjöttu sem að flestra mati er besta Fast and Furious-myndin til þessa.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Aðalhlutverk: Chris Pine, Zachary Quinto, Idris Elba, Zoe Saldana, Simon Pegg, Sofia Boutella, Anton Yelchin og Karl Urban.

Aldurstakmark: 12 ára

Áhugaverðir punktar til gamans: 

star trek– Sá válegi atburður gerðist þann 19. júní að Anton Yelchin, sem leikið hefur Chekov í síðustu þremur Star Trek-myndum að þessari nýjustu meðtalinni, lét lífið í hörmulegu slysi. Hans er hlýlega minnst og sárt saknað af öllum sem hann þekktu og það kæmi ekki á óvart ef Star Trek-Beyond yrði tileinkuð minningu hans. Sjá nánar um Anton og eftirmæli um hann í bíógreinunum hér fremst í blaðinu.

– Eins og fyrr hefur söguþræði myndarinnar að mestu leyti verið haldið leyndum en þó er vitað að eftir árás hinna áður óþekktu geimvera þarf áhöfnin á Enterprise að yfirgefa skipið og leita skjóls á ókannaðri plánetu.

– Hermt er að atburðirnir í Star Trek Beyond eigi að gerast tveimur árum eftir atburðina í síðustu mynd, Star Trek Into Darkness.