Óþægilegt áhættuatriði í 2 Guns

Denzel Washington þurfti að leika í nokkrum áhættuatriðum við tökur á hasarmynd Baltasars Kormáks, 2 Guns. Þar á meðal réðst naut á hann og Mark Wahlberg á meðan þeir héngu öfugir með fæturna upp í loft.

2-Guns-620x396

„Við gerðum margt heimskulegt, eins og að hanga uppi öfugir á meðan naut reyndi að stanga okkur,“ sagði Washington á vefsíðu Contactmusic. „Þetta var miklu meira en of mikið af hinu góða. Þetta var óþægilegt. Að sjálfsögðu voru þeir
ekki með „áhættunaut“ á svæðinu heldur var alvöru naut þarna. Það var ekki vingjarnlegt. Það vissi ekki að það væri að leika í einhverri mynd.“

Washington hafði gaman af því að vinna með Mark Wahlberg. „Hann er með hjarta úr gulli. Hann er algjör ljúflingur. Mjög fínn náungi.“

Hvað kvikmyndaferilinn varðar vill Washington helst taka sér sem minnst frí. „Ég lék ekki mikið í fyrra. Það hentar mér ekki vel. Ég þarf að vera upptekinn. Maður verður að fara fram úr á morgnana, fara í vinnuna og hafa eitthvað að gera.“