Tilkynnt hefur verið að lokamynd Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, í ár verði fyrstu tveir þættirnir af þáttaröð Baltasars Kormáks og Reykjavík Studios, Ófærð.
Beðið hefur verið af mikilli eftirvæntingu eftir þáttaröðinni, sem sýnd verður í kringum jólahátíðirnar á RÚV og seld hefur verið til fjölmargra landa. Ófærð er dýrasta íslenska sjónvarpsþáttaröð sem framleidd hefur verið og var tekin upp meðal annars í Reykjavík, Siglufirði og á Seyðisfirði.
Þættirnir fjalla um Andra (Ólafur Darri Ólafsson) sem er lögreglustjóri í litlum bæ úti á landi. Hann býr með dætrum sínum á heimili tengdaforeldra sinna en eiginkona hans er flutt til Reykjavíkur og tekin saman við annan mann. Hann er ekki tilbúinn að sætta sig við að hjónabandið sé á enda og því er líf allrar fjölskyldunnar í millibilsástandi. Þegar sundurlimað lík finnst í firðinum breytist hinsvegar allt.
Fyrstu tveir þættirnir verða sýndir í einni heild í Egilshöll sunnudaginn 4.okt.
Aðalhlutverk: Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Ingvar E. Sigurðsson, Nína Dögg Filipusdóttir, Bjarne Henriksen.
Leikstjórar: Baltasar Kormákur og Baldvin Zóphóníasson
Handrit: Sigurjón Kjartansson og Clive Bradley
Hugmynd: Baltasar Kormákur