Ófrýnileg Ísgerður í Four Walls

Leikkonan Ísgerður Gunnarsdóttir birti heldur ófrýnilega mynd af sér á Facebook síðu sinni í síðustu viku. Myndin var samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag laugardag, tekin þegar Ísgerður var við tökur á breskri kvikmynd, Four Walls, en í myndinni leikur Ísgerður konu sem lætur lífið en snýr aftur í draugslíki.

Ísgerður segist í samtali við blaðið hafa leikið í myndinni sl. haust, og hlutverkið hafi verið töluvert frábrugðið því sem hún hafi áður fengist við. „Það reyndi á að halda augunum opnum meðan blóðið lak niður andlitið á mér, og líka að passa sig að brosa ekki svo að förðunin molnaði ekki af andlitinu,“ segir Ísgerður í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að tökur myndarinnar hafi farið fram í sama húsi og tökur á hluta af nýjustu The Fast and the Furious myndinni, fóru fram.

Hlutverk Ísgerðar var ekki aðalhlutverk, en þó ágætis hlutverk að hennar sögn.

Myndin segir af manni ásóttum af afturgöngu konu einnar og dóttur hennar sem áður bjuggu í húsinu hans. Hann er félagsfælinnn og hefur lokað sig af í húsinu en

eftir því sem líður á myndina verður hann sífellt helteknari af því að komast að því hver morðinginn er og þarf smám saman að eiga við bæði sig og aðra við leit sína að honum.

Leikstjóri myndarinnar er J.P. Davidson. 

Hér er heimasíða Ísgerðar, en myndin hér til hliðar var fengin að láni þaðan.

Myndin af Ísgerði sem afturgöngu er tekin af Facebook síðu hennar.

Ekki er vitað enn hvenær myndin verður frumsýnd.