Nú styttist óðum í að ný stikla úr nýjustu mynd ráðgátumeistarans M Night Shyamalan, Glass, komi út, og er líklegt að aðdáendur mynda hans Unbreakable og Split séu hvað spenntastir, enda er um þriðju myndina í þríleik að ræða.
Til að gera langa sögu stutta þá er von á stiklunni síðar í dag, en á Twitter er greint frá því að í stiklunni muni persóna Bruce Willis úr Unbreakable, David Dunn, fá sérstakt hliðarsjálf, eins og allar góðar ofurhetjur auðvitað eiga.
Nafn hliðarsjálfsins er The Overseer, sem er reyndar mjög vel við hæfi þar sem ofurkraftar David leyfa honum m.a. að læra allt hið illa um hvern einasta einstakling, bara með því að snerta viðkomandi
Í Glass takast þeir á David og gamli erkióvinur hans Elijah Price, öðru nafni Mr. Glass, sem Samuel L. Jackson leikur, en þeir eru ásamt Kevin Wendell Crumb, sem James McAvoy leikur, saman í stuðningshópi fyrir fólk sem telur sig búa yfir ofurkröftum.
M Night Shyamalan fékk hugmyndina að Glass fyrir 20 árum síðan, þegar hann var að kvikmynda Unbreakable, en hann sá hana alltaf fyrir sér sem fyrstu mynd í seríu.
“Þegar ég gerði Unbreakable, þá eiginlega ætlaði ég að gera þrjár kvikmyndir,” sagði leikstjórinn og bætti við: “Myndin fékk svo skrýtnar viðtökur … henni var ekki vel tekið á sínum tíma. Mér sárnaði það, þannig að ég fór í aðra hluti. Mér langaði í framhaldinu að gera minni myndir, en svo gerði ég Split og þá kom tækifærið til að koma aftur að málinu.”
Bruce Willis is The Overseer. Watch the new trailer for #GlassMovie Thursday. pic.twitter.com/KVCXgNPiMJ
— Glass (@GlassMovie) October 9, 2018
Glass kemur í bíó hér á landi 18. Janúar á næsta ári.