Potter-maraþon: Prisoner of Azkaban


Í gær seldist upp á tvöföldu forsýninguna (eða tæknilega séð fjórföldu, fyrst þetta verður í tveimur sölum) og verða þar af leiðandi yfir 600 manns sem mun horfa á seinustu tvær myndirnar í heillri fimm tíma setu. En það þýðir ekkert að njóta lokakaflans án þess að renna í gegnum allt hitt á undan og þá erum við komin að myndinni sem Kvikmyndir.is notendur hafa kosið sem bestu Harry Potter-myndina hingað til.

ÁR #3: HARRY POTTER AND THE PRISONER OF AZKABAN

Hvort sem mönnum finnst þetta vera besta myndin í röðinni eða ekki þá geta allir verið sammála um að innkoma mexíkanska leikstjórans Alfonso Cuarón hafi verið eitt það besta sem gat hentað seríunni. Cuarón sparkaði dúnmjúka og bíómyndalega ævintýrafílingnum sem Chris Columbus bjó til og skipti því út fyrir kaldlynt og hálf raunsætt andrúmsloft sem setti allt annan svip og tón á seríuna. Eftir það komu nýir leikstjórar, og hver með sinn stíl, en aldrei var snúið aftur til stílsins sem Columbus notaði, og af góðri ástæðu.


(þetta er einn allra upphálads HP-trailerinn minn. Takið samt eftir mæknum á 01:01)

IMDB einkunn: 7,7
RottenTomatoes prósenta: 91% (!!!)
Ebert: 3.5/4

Umfjöllun: Skrifuð af Stefáni Friðrik Stefánssyni þann 22. júlí 2004.

Töframaðurinn ungi, Harry Potter er mættur þriðja sinni á hvíta tjaldið. Í upphafi myndarinnar býr hann enn hjá skyldmennum sínum, hinni mjög svo pirrandi Dursley-fjölskyldu. Brátt heldur hann þó á nýjan leik í Hogwart skóla. Bestu vinir hans Ron Weasly og Hermione eru þar sem fyrr. Lenda þau í miklum ævintýrum er spyrst út að Sirius Black hafi sloppið úr Azkaban fangelsinu og vilji Harry illt. Kemst Harry að því von bráðar að þar er um að kenna foreldrum sínum og Voldemort, hinum forna fjanda fjölskyldu sinnar.

Stórfengleg og vel gerð ævintýramynd. Handrit Steven Kloves eftir þriðju bók J.K. Rowling er meistaralega gerð og heldur athygli áhorfandans allan tímann. Myndin er gríðarlega vel leikin: Daniel Radcliffe er að festa sig í sessi í hlutverki Harrys og Rupert Grint fer á kostum sem fyrr í hlutverki hins skemmtilega Rons. Emma Watson, Julie Walters, David Thewlis, Alan Rickman, Dame Maggie Smith, Robbie Coltrane og Emma Thompson eiga stórleik ennfremur í myndinni. Senuþjófurinn er þó hiklaust Gary Oldman í hlutverki Sirius, hann er magnaður leikari og tekst alltaf að stela senunni í hverri mynd og á flotta innkomu í þessu hlutverki. Michael Gambon er tekinn við hlutverki Dumbledore af Richard Harris, sem lést árið 2002. Glæddi Harris persónuna sínu lífi og er eftirsjá af honum, en þrátt fyrir að Gambon standi sig með ágætum fellur hann í skuggann af Harris. Hafa aðalpersónurnar þroskast mjög og vart hægt að tala um Potter myndirnar sem barnamyndir lengur, nú þegar söguhetjurnar eldast hefst mikið þroskaferli hjá þeim.Tónlist snillingsins John Williams á vel við eins og ávallt og sérstaklega fannst mér kóralagið sem hljómar í byrjunni áhrifamikið.

Mexíkaninn Alfonso Cuarón stendur sig vel í leikstjórastólnum og gerir mun betur en Chris Columbus sem leikstýrði fyrri myndunum tveimur. Er um að ræða langbestu myndina í seríunni. Óhætt er að mæla með Harry Potter and the Prisoner of Azkaban við alla sanna kvikmyndaáhugamenn.

Þá spyr ég: Hvað finnst YKKUR um myndina og hvaða einkunn myndi hún fá?

T.V.