Tónlistarmyndin Bohemian Rhapsody, sem fjallar um bresku hljómsveitina Queen allt frá því hún var stofnuð og þar til hún kom fram á Live Aid tónleikunum árið 1985, er raka inn seðlunum í bíósölum heimsins. Myndin er sannkölluð veisla fyrir aðdáendur Queen og tónlistarunnendur almennt, enda hljómar fjöldi vinsælla Queen laga í myndinni, og maður fær smjörþefinn af því hvernig einstök þekkt lög sveitarinnar urðu til.
Fyrstu spár um aðsókn í Bandaríkjunum nú á frumsýningarhelginni gera ráð fyrir að tekjur myndarinnar muni nema um 50 milljónum bandaríkjadala, en á frumsýningarhelginni í Bretlandi um síðustu helgi námu tekjur myndarinnar jafnvirði 13 milljóna dala. Eins og breska blaðið Metro bendir á þá er myndinni að ganga mun betur en margir bjuggust við fyrirfram, einkum í ljósi þeirra mörgum vandamála sem upp komu á framleiðslutímanum, en þau byrjuðu með því að Sasha Baron Cohen hætti við að leika Freddie Mercury. Með aðalhlutverkið, hlutverk Mercury, fer Rami Malek, en með hlutverk gítarleikarans snjalla Brian May fer Gwilym Lee.
Glöggir bíógestir hafa væntanlega tekið eftir því að leikstjóri myndarinnar er sagður vera Bryan Singer, en hann var í raun rekinn frá myndinni, áður en hún var fullkláruð. Sagt er að samband Singer og leikara og tökuliðs hafi verið stirt. Rami Malek sagði við Metro.co.uk að Singer hefði verið orðinn svo fjarlægur, að það hafi þurft að skipta honum út. Þá hefur verið rætt um að Singer hafi á einum tímapukti skeytt skapi sínu á einhverju rafmagnsdóti þegar hann var að rífast við Malek. Samt er Malek sagður einn ljúfasti leikari sem hægt er að finna í Hollywood.
Sagt er einnig að Tom Hollander, sem leikur umboðsmann Queen, Jim Beach, sem Mercury vill reyndar í myndinni kalla „Miami Beach“, hafi á einum tímapunkti hætt í fússi, vegna hegðunar Singer.
Bryan Singer sagði sjálfur síðar að öll samskiptin væru bara eins og gerist og gengur þegar verið er að taka upp kvikmyndir, ekkert óvenjulegt hefði verið á ferðinni.
Öllu þessu lauk hinsvegar 1. desember í fyrra, þegar tökum var hætt, og Bryan var rekinn stuttu síðar. Við keflinu tók Dexter Fletcher. Bryan sagði um það: „Ég eyddi einu og hálfu ári af lífi mínu og ástríðu í Bohemian Rhapsody. Ég er mjög stoltur af endanlegri útgáfu. Það kom tímapunktur meðan á þessu stóð þar sem ég bað um að fá að fara heim til að annast veika foreldra mína. Þetta hafði einnig áhrif á mína eigin heilsu. Mér fannst sem við gætum klárað það litla sem eftir var í janúar. Framleiðslufyrirtækið var þessu ósammála.“