Leikstjórinn Quentin Tarantino er staddur hér á landi, en til hans sást á Leifsstöð í dag. Þegar þetta er skrifað er Tarantino staddur í gleðskap hjá athafnamanninum Jóni Ólafssyni. Margir úr skemmtanalífinu á Íslandi eru hjá Jóni og má þar nefna Egil Ólafsson, Diddú og Baltasar Kormák.
Einn gestanna, Guðjón Ólafsson, náði mynd af sér með kappanum og segir hann að Tarantino hafi verið með eindæmum hress og spjallað við fólk. Myndina má sjá hér til vinstri.
Leikstjórinn er þó ekki hér á landi einungis til þess að mæta í gleðskap hjá Jóni Ólafssyni, en hann mun halda í veiðiferð ásamt umboðsmanni sínum og vinum á morgun.
Tarantino hefur áður heimsótt Ísland og ávallt verið duglegur að auglýsa landið. Frægt var þegar hann var í viðtalsþætti hjá Conan O’Brien, þar sem hann talaði um okkar fallega kvenfólk og villta næturlíf.
Tarantino er talinn einn besti handritshöfundur heims í dag, ásamt því að vera viðurkenndur sem magnaður og einkennilegur leikstjóri. Maðurinn er gífurlegur kvikmyndaunnandi, enda starfaði hann og sá allt sem hann gat gripið þegar hann vann á myndbandaleigu sem ungur maður.
Nýjasta mynd hans, Django Unchained, hefur hlotið mikið lof og fékk Tarantino Óskarsverðlaun fyrir handrit sitt að myndinni.