Richard Attenborough látinn

Leikarinn og leikstjórinn Richard Attenborough, sem margir þekkja í hlutverki John Hammond úr kvikmyndinni Jurassic Park, er látinn. 90 ára að aldri. The Guardian hefur eftir syni Attenborough að hann hafi látist um hádegisbilið í dag og að hann hafi aldrei náð sér að fullu eftir heilablóðfall sem hann fékk á síðasta ári.

richard-attenborough

Eins og fyrr segir þá sló Attenborough rækilega í gegn á hvíta tjaldinu í hlutverki höfundar Júragarðsins í samnefndri mynd frá árinu 1993. Attenborough er einnig þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndunum Brighton Rock og The Great Escape. Leikstjórnarferillinn er ekki síðri en Attenborough leikstýrði meðal annars Óskarsverðlaunakvikmyndinni Gandhi frá árinu 1982.

Þess má geta að Richard var eldri bróðir sjónvarpsmannsins og náttúrunnandans David Attenborough, en þrjú ár voru á milli þeirra bræðra.