Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík verður sett í 17. sinn þann 24. september, fimmtudag næstkomandi, og stendur til 4. október. Opnunarmynd RIFF í ár er Þriðji póllinn, ný íslensk kvikmynd eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur.
Í myndinni er sagt frá Önnu Töru, sem veiktist af geðhvörfum upp úr tvítugu og missti móður sína úr sama sjúkdómi. Hún lifði í skugga veikindanna um árabil, en þegar Högni Egilsson steig fram með sína sögu ákvað hún að feta sömu leið, skora skömmina á hólm og efna til tónleika til vitundarvakningar um geðsjúkdóma í Kathmandu, höfuðborg Nepals. Hún fékk Högna til að spila á tónleikunum og fyrir ágóðann var opnuð hjálparlína fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum í Nepal.
Á dögunum voru haldnar forsýningar á heimildarmyndinni fyrir gagnrýnendur og ýmist fjölmiðlafólk. Viðtökur hafa smám saman verið að berast, allflestar í jákvæðari kantinum, og getur fjölmiðlakonan og bíósérfræðingurinn Sigríður Pétursdóttir hiklaust svarið sig í dyggan hóp aðdáenda Þriðja pólsins.
Sigríður skrifar fallega samantekt á Facebook-síðu sinni og þar segir:
„Tárin runnu í stríðum straumum oftar en einu sinni, en það er sjálfsagt að hluta til vegna þess að ég hef verið aðstandandi þriggja kynslóða með geðhvörf. Högni og Anna Tara eru fallegar sálir og merkilegt hvað þau ganga nærri sér.
Ég ber djúpa virðingu fyrir þeim að gefa okkur þessa innsýn í rót hugans sem engu eirir, djúpa dali, sköpunarkraftinn, og húmorinn fyrir eigin gjörðum í maníu. Svo er myndin einstaklega falleg myndrænt og hljóðrænt líka. Ég er þakklát öllum aðstandendum fyrir þetta þarfa listaverk, sem ég vona að sem flestir sjái og ferðist um víðan völl. Takk fyrir mig!“
Þriðji Póllinn fylgir Önnu Töru og Högna um framandi slóðir í aðdraganda tónleikanna. Við heyrum þeirra hliðar á sjúkdómnum; um hæðirnar og hinar miklu lægðir og leitina að jafnvægi. Þetta er fyrsta mynd Anní Ólafsdóttur í fullri lengd en Andri Snær Magnason hefur áður leikstýrt Draumalandinu ásamt Þorfinni Guðnasyni, sem var aðsóknarmesta heimildarmynd Íslandssögunnar.
Þriðji Póllinn er ekki hefðbundin fræðslumynd heldur innsýn í hugsun og veruleika tveggja einstaklinga sem hafa glímt við sama sjúkdóm. Þetta er ferðasaga, mynd um óvænta vináttu og hreinskilin og opin umræða um hvað það þýðir að vera með geðsjúkdóm, og vera aðstandandi. Sögur þeirra lýsa bæði alvarleika sjúkdómsins, en einnig sigrum, og gefa umfram allt von.
Vegleg kvikmyndadagskrá verður á riff.is þar sem öllum landsmönnum býðst að horfa jafnt á landi sem og sjó. Um 60 myndir verða sýndar á netinu og u.þ.b. 20 í Bíó Paradís og Norræna húsinu. Þær verður ekki hægt að sjá á netinu. Þau sem vilja horfa á netinu geta kynnt sér fyrirkomulagið hér.