Golden Globe sigurvegarinn og Óskarstilnefndi leikarinn fyrir The Wrestler, Mickey Rourke, mun leika nasistabullu í næstu kvikmynd sinni, Night Walk, að því er breska blaðið Daily Mail greinir frá.
Rourke, sem er 65 ára, leikur í myndinni meðlim í Aríska bræðralaginu, sem er þekkt nýnasistagengi í fangelsum í Bandaríkjunum. Von er á myndinni í bíó árið 2019.
Í myndunum hér að neðan má sjá Rourke vöðvastæltan og beran að ofan í fullum skrúða á tökustað í Los Angeles, en hann skartar þar meðal annars hakakrosshúðflúri á upphandlegg sínum. Með honum á myndunum er meðleikari hans, Sean Stone, 33 ára, sonur Óskarsverðlaunaleikstjórans Oliver Stone.
Í myndinni reynir Rourke að ráða Stone, sem leikur aðalpersónuna Frank, inn í Aríska bræðralagið, eftir að hann er ranglega fangelsaður af spilltri löggu fyrir morðið á arabísk-ættaðri eiginkonu sinni.
Leikstjóri er Aziz Tazi, en aðrir leikarar eru meðal annars Eric Roberts og Richard Tyson.
Tökum á myndinni lauk um síðustu helgi samkvæmt Daily Mail, en tökur fóru að mestu fram á norðurströnd Afríku, í Marokkó nánar tiltekið. Einnig voru nokkur atriði tekin upp í draumaborginni, Los Angeles.
Í samtali við Daily Mail segir Stone að myndin fjalli um elskendur úr ólíkum menningarheimum, hvítan strák frá Bandaríkjunum og konu frá Mið- austurlöndum, sem verða ástfangin, en það breytist allt saman í skelfilega martröð þegar maðurinn er ranglega sakaður um að drepa konuna þegar þau ferðast til heimalands konunnar.
“Mickey leikur grjótharðan nagla í fangelsinu, sem er í Aríska bræðralaginu, sem ég kynnist á fyrsta deginum í fangelsinu,” segir Stone.
“Hann heillar mig strax, og ég þarf að ákveða hvort ég á að ganga til liðs við gengið til að fá vernd í fangelsinu, eða fara inn í múslimska gengið.”
Kíktu á myndirnar hér fyrir neðan sem birtust á Instagram reikningi Stone: