Ný heimildamynd um gítarleikara bresku hljómsveitarinnar The Beatles, eða Bítlanna, verður frumsýnd í október á HBO sjónvarpsstöðinni bandarísku. Í myndinni er notast m.a. við fjölskyldumyndbönd, viðtöl og efni sem aldrei hefur sést áður opinberlega.
Myndin er framleidd af Óskarsverðlaunaleikstjóranum Martin Scorsese og ekkju Harrisons, Oliviu. Myndin, sem heitir George Harrison: Living in the Material World, segir frá lífi Bítilsins allt frá fyrstu árunum í Liverpool á Englandi, heimaborg Bítlanna, þar til hann sló í gegn með félögum sínum í hljómsveitinni á sjöunda áratug síðustu aldar. Einnig verður sagt frá starfi hans að góðgerðarmálum og kvikmyndagerð.
George Harrison lést úr lungnakrabbameini árið 2001 í Los Angeles í Bandaríkjunum, 58 ára að aldri. Þó að Harrison hafi oft verið lýst sem feimna hægláta Bítlinum, þá samdi hann sígild lög eins og Here Comes the Sun og Something fyrir Bítlana. Einnig lék hann með ofurbandinu Traveling Wilburys á níunda áratugnum.
Heimildamyndin er þrír og hálfur tími að lengd, og í henni er rætt við m.a. Bítlana Paul McCartney og Ringo Starr, og einnig Eric Clapton, Yoko Ono, Phil Spector og upptökustjórann George Martin.
Myndin verður sýnd í tveimur hlutum á HBO þann 5. og 6. október og verður gefin út í Bretlandi á DVD og Blu-ray 10. október.
Scorsese er enginn nýgræðingur þegar kemur að myndum um tónlistarmenn. Hann hefur áður gert The Last Waltz árið 1978 sem fjallar um síðustu tónleika hljómsveitarinnar The Band, auk heimildamyndarinnar um bresku rokkhljómsveitina Rolling Stones, Shine a light.
Scorsese segist hafa lengi verið aðdáandi Harrisons.
„Þannig að þegar mér bauðst að gera þessa mynd, þá stökk ég á það. Það var frábært að fá tækifæri til að eyða tíma með Oliviu, að taka viðtal við svona marga góða vini Georges, skoða allt þetta myndefni og hlusta á alla þessa frábæru tónlist,“ sagði Scorsese í yfirlýsingu.
Bók verður gefin út samhliða myndinni, en í henni verða birtar ljósmyndir, bréf, dagbókarbrot og annað úr safni Oliviu og George Harrison.