Sherlock Holmes 2: Ný stikla


Sherlock Holmes: A Game of Shadows er væntanleg yfir hátíðirnar og er markaðsefnið farið að sækja í sig veðrið. Stikla fyrir myndina er komin á netið, og á meðan hún lofar ágætis skemmtun sýnir hún líka full mikið. En sýnishorn eru farin að gera það almennt. En eins og allir vita snýr Robert Downey Jr. aftur í hlutverk Sherlock Holmes, og Jude Law leikur hans hundtrygga félaga Dr. Watson. Íslandsvinkonan Noomi Rapace bætist við hópinn í fyrsta stóra Hollywood hluverki sýnu eftir Millenium myndirnar – og leikur dularfulla sígaunakonu sem verður á vegi þeirra félaga. Þá leikur Jared Harris Moriarty, erkióvinn Holmes sem var í felum alla síðustu mynd, en er ekkert mál að sjá í þessari nýju stiklu.

Guy Ritchie leikstýrir myndinni í annað sinn, og handritið er eftir hjónin Kieran og Michele Mulrony, sem síðast gerðu saman Paper Man með Ryan Reynolds í aðalhutverki. Sagan er að sjálfsögðu byggð á persónum Arthur Conan Doyle, en ævintýrið sem Holmes lendir í er búið til frá grunni fyrir myndina, rétt eins og þá síðustu. Hér er annars stiklan, hún sýnir í raun aðeins meira af því saman, léttur húmor og hasar í slowmotion. Fínt í minni bók, en kannski ekki mest spennandi hlutur í heimi. Myndin kemur í bíó 26. desember.